Forseti Madrídarhéraðs lofar andstöðu við spænsk stjórnvöld

Forseti Madrídarhéraðs, Isabel Diaz Ayuso, og leiðtogi Lýðflokksins, Pablo Casado …
Forseti Madrídarhéraðs, Isabel Diaz Ayuso, og leiðtogi Lýðflokksins, Pablo Casado ávarpa stuðningsmenn þeirra. AFP

Forseti Madrídarhéraðs á Spáni, Isabel Diaz Ayuso, segist ætla að halda áfram að vega gegn ríkisstjórn Sósíalistaflokksins. The Guardian greinir frá því að Ayuso muni ekki slaka á þeirri árásargjörnu orðræðu sem einkenndi kosningabaráttu hennar en meðal annars gagnrýndi hún harðlega sóttvarnaraðgerðir ríkisstjórnar Pedro Sanchez.

Spænski Lýðflokkurinn vann yfirgnæfandi sigur í héraðskosningum Madrídar í gær og tvöfaldaði flokkurinn þingsæti þeirra á héraðsþinginu þar sem hann fékk 65 þingsæti af 136. Velgengni þeirra í kosningunum skilaði þeim þó ekki hreinum meirihluta á héraðsþinginu, en búist er við að Lýðflokkurinn muni semja við öfga-hægriflokkinn Vox um stuðning þeirra á þinginu.

Pedro Sanchez færði Ayuso hamingjuóskir með árangurinn en minnti hana einnig á þá miklu ábyrgð sem fylgir sigur hennar. Sósíalistaflokkurinn, flokkur Sanchez, lenti í þriðja sæti í kosningunum á eftir vinstrisinnaða héraðsflokknum „Meiri Madríd“  og þykja úrslitin vera mikil niðurlæging fyrir flokkinn.

Minni flokkar verða undir 

Eftir lélegt gengi Podemos-flokksins í héraðskosningunum sagði leiðtogi hans, Pablo Inglesias, af sér og tilkynnti að hann myndi draga sig í hlé frá spænskum stjórnmálum.

Podemos er ekki eini flokkurinn sem fór illa úr kosningunum. Hinn frjálslyndi Borgaraflokkur tapaði öllum sínum 26 þingmönnum á héraðsþinginu og þykir það einkennandi fyrir harðnandi samkeppni hans, Lýðflokksins og Vox um hægri væng spænskra stjórnmála.

Vinsældir Vox hafa leitt til þess að aðrir hægrisinnaðir flokkar hafa færst enn lengra til hægri í von um að keppa um fylgi þeirra. Ayuso er t.d. talin hafa dregið héraðsflokk Lýðflokksins í Madríd enn lengra til hægri miðað við landsflokkinn.   

„Lýðflokkurinn er lentur í ákveðinni mótsögn: hann þarf að styrkjast og stela fylgi frá Vox til þess að komast til valda en á sama tíma þarf flokkurinn stuðning Vox til þess að komast til valda,“ sagði Pablo Simon, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Karls þriðja í Madríd, í viðtali við The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert