Hætta að nota AstraZeneca fyrir yngri en 40 ára

AFP

Bresk vísindanefnd, sem fer með bólusetningaráætlun landsins, mælir með því að þeir sem eru yngri en 40 ára verði bólusettir með öðru bóluefni en AstraZeneca. 49 hafa látist af völdum blóðtappa eftir bólusetningu í Bretlandi en 128 þúsund af völdum Covid-19.

Nefndin, Joint Committee on Vaccination and Immunisation (JCVI), segir að þetta sé gert í varúðarskyni vegna hættunnar á blóðtappa meðal fólks á aldrinum 30-39 ára. Þessum aldurshópi verður boðið upp á annað sambærilegt bóluefni og AstraZeneca.

Nóg framboð af bóluefni 

Wei Shen Lim, prófessor sem starfar hjá JCVI, segir að á sama tíma og nóg framboð sé af bóluefni verði yngri en 40 ára ekki boðið upp á bólusetningu með AstraZeneca og að þetta tefji ekki bólusetningu mikið. Ef smitum fer að fjölga gæti þessi ákvörðun verið endurskoðuð. 

Að sögn Lim er tilgangurinn með þessu sá að auka enn frekar trú fólks á bólusetningu og það styttist í að fólk yngri en 40 ára verði bólusett í Bretlandi. Að ríkisstjórn Bretlands setji öryggi landsmanna í forgang. Ekkert bendi til annars en að áætlun stjórnvalda um að allir fullorðnir verði búnir að fá fyrri skammt bólusetningar fyrir lok júlí standist. 

Yfir 50 milljónir þegar bólusettar

June Raine, sem stýrir Lyfjaeftirlitsstofnun Bretlands, Medicines and Healthcare products Regulatory Agency, segir að þetta breyti engu um ráðgjöf stofnunarinnar um að aukaverkanir bóluefnis AstraZeneca séu gríðarlega sjaldgæfar. 

Af þeim 28 milljónum Breta sem höfðu fengið fyrri bólusetningu 28. apríl hafa komið upp 242 tilvik mjög sjaldgæfra tilfella blóðtappa þar sem magn blóðflagna er einnig minnkað eða 10,5 tilvik á hverja eina milljón bólusetninga. Alls er þetta 141 kona og 100 karlar á aldrinum 18 til 93 ára. Af þeim er hlutfall þeirra sem létust 20% eða 49 einstaklingar. Alls hefur verið tilkynnt um þessa aukaverkun hjá sex einstaklingum eftir seinni bólusetningu.

Tæplega 128 þúsund hafa látist af völdum Covid-19 í Bretlandi og er þetta mesta mannfall innan eins ríkis í Evrópu.

Nú hafa tæplega 35 milljónir fengið fyrri bólusetningu í Bretlandi og yfir 16 milljónir þann seinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert