Kutarnir á loft í Verkamannaflokknum

Keir Starmer er í miklum vanda eftir kosningarnar á fimmtudaginn.
Keir Starmer er í miklum vanda eftir kosningarnar á fimmtudaginn. AFP

Þó að talningu atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum í Bretlandi verði ekki lokið fyrr en um helgina þykir ljóst að Verkamannaflokkurinn hafi beðið sögulegt afhroð. Flokkurinn beið lægri hlut í aukakosningum um þingsætið í Hartlepool, einu sínu traustasta vígi, og þá hefur hann glatað fjölmörgum af sveitarstjórnarmönnum sínum. Spurningar hafa því vaknað um framtíð Keirs Starmer sem leiðtoga flokksins. 

Starmer tók við leiðtogaembættinu í fyrra eftir að Jeremy Corbyn leiddi flokkinn til sinnar verstu niðurstöðu í almennum þingkosningum frá árinu 1935. Megnið af þeim tíma hefur Starmer þurft að glíma við Boris Johnson, forsætisráðherra sem nýtur mikillar almannahylli utan Lundúna, á sama tíma og ógn kórónuveirunnar hefur þjappað Bretum saman. 

Niðurstaða þingkosninganna í desember 2019 hafði þegar bent til þess að forsvarsmenn Verkamannaflokksins hefðu glatað tengslum sínum við helstu kjósendahópa sína á Norður-Englandi, þar sem hinn svokallaði „rauði veggur“ hrundi, en hann samanstóð af þingsætum þar sem kjósendur höfðu ekki kosið annað en Verkamannaflokkinn svo árum og áratugum skipti.

Nú bættist Hartlepool í þann sarp, en þar völdu kjósendur frambjóðanda Íhaldsflokksins í fyrsta sinn frá því það var sett á fót árið 1974. Kapphlaupið um hið lausa þingsæti var þó ekki hið eina sem veldur Verkamannaflokknum áhyggjum, heldur var einnig kosið til sveitarstjórna eða hluta sveitarstjórna vítt og breitt um Bretland. 

Þegar niðurstöður lágu fyrir í 49 af þeim 143 sveitarstjórnum sem kosið var um á fimmtudaginn hafði Verkamannaflokkurinn glatað 129 sveitarstjórnarmönnum, en Íhaldsflokkurinn bætt við sig sama fjölda. Frjálslyndir demókratar höfðu þá glatað einum af sínum manni. Sveiflan frá Verkamannaflokknum til Íhaldsflokksins mælist um 12 prósentustig í þeim kjördæmum, þar sem meirihluti kjósenda studdi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. 

Til varnar fyrir Corbyn

Að lokinni kosninganótt 2019 vöknuðu þegar í stað spurningar um hæfi Jeremys Corbyn, sem talinn var yst á vinstri væng flokksins, til þess að leiða hann til afreka, og þótti ljóst að Corbyn hefði ekki náð að heilla breska kjósendur.

Sir Keir Starmer, sem kemur úr þeim armi flokksins sem nær er miðjunni, varð að lokum formaður eftir snarpan formannsslag, en von flokksmanna var sú að Starmer gæti betur höfðað til þeirra sömu kjósenda og höfðu varpað Verkamannaflokki Corbyns fyrir róða. 

Skuggi Jeremys Corbyn vomir enn yfir Verkamannaflokknum.
Skuggi Jeremys Corbyn vomir enn yfir Verkamannaflokknum. AFP

Niðurstöður fimmtudagsins benda hins vegar ekki til þess að Starmer hafi átt erindi frekar en erfiði til kjósenda frekar en Corbyn, og töldu því stuðningsmenn þess síðarnefnda nú röðina komna að sér að brýna kutana. 

Diane Abbott, einn helsti bandamaður Corbyns á sínum tíma, benti til dæmis á það að Corbyn hefði þó náð að tryggja Verkamannaflokknum tvisvar sigur í Hartlepool, og því væri ekki hægt að kenna honum um ósigurinn. „Keir Starmer verður að endurhugsa áætlun sína,“ sagði hún á Twitter-síðu sinni. 

Fleiri harðir vinstrimenn innan flokksins létu einnig í ljós þá skoðun sína að tilraun Starmers til að höfða til miðjunnar hefði misheppnast, og að því væri ástæða til þess að snúa aftur til vinstri með flokkinn.

Peter Mandelson, sem var einn af helstu bandamönnum Tonys Blair og fyrrverandi þingmaður Hartlepool, sagði hins vegar við breska ríkisútvarpið BBC að hann skellti ósigrinum alfarið á „C-in“ tvö: Covid-19 og Corbyn. „Kosningasaga flokksins er skýr: ósigur, ósigur, ósigurBlair, Blair, Blair, ósigur, ósigur, ósigur,“ sagði Mandelson. 

Kosningahópar í andstöðu við hvor annan

Hvort sem hægt er að skella skuldinni á miðsækni Starmers eða vinstrimennsku Corbyns, telja stjórnmálaskýrendur í Bretlandi að róðurinn verði Starmer þungur. Tom Harris, fyrrverandi þingmaður Verkamannaflokksins og dálkahöfundur hins íhaldssama dagblaðs Daily Telegraph, segir til dæmis í nýjasta pistli sínum, að í venjulegu árferði myndi Starmer þurfa að segja af sér leiðtogahlutverkinu, en að hann muni lifa af þeirri ástæðu einni, að enginn augljós arftaki sé sjáanlegur. 

Þá hafa ýmsir bent á það, að sífellt stærri gjá sé að myndast á milli þeirra kjósendahópa, sem hingað til hafa stutt Verkamannaflokkinn í gegnum súrt og sætt, þar sem annars vegar sé um ákveðna „menntaelítu“ í þéttbýli að ræða, þá sérstaklega í Lundúnaborg, og hins vegar fólk af verkalýðs- og millistétt norðar í Englandi.

Síðarnefndi hópurinn var raunar einn af helstu drifkröftunum á bak við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, á sama tíma og fyrrnefndi hópurinn, með Starmer sjálfan í stafni, hafi lagt þunga áherslu á að hagsmunum Breta væri best borgið innan Evrópusambandsins. 

Boris Johnson hefur farið mikinn í kosningabaráttunni.
Boris Johnson hefur farið mikinn í kosningabaráttunni. AFP

Þá má segja að síðasta skyssan sem forsvarsmenn Verkamannaflokksins hafi gert í aðdraganda kosninganna hafi verið sú að vanmeta Boris Johnson, forsætisráðherra og formann Íhaldsflokksins. Fjölmargir á vinstri kanti breskra stjórnmála leggja hreina fæð á hann, og stóðu vonir þeirra til þess að nýleg hneykslismál myndu duga til þess að fella Boris.

Johnson lét hins vegar allar úrtöluraddir sem vind um eyru þjóta, og tók þátt í kosningabaráttunni af miklum móð. Niðurstöðurnar í Hartlepool hafa því náð að þagga í efasemdarröddum innan Íhaldsflokksins um stundarsakir, en Starmer situr uppi með Svartapétur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert