Færni í Tetris gott veganesti

Morning Lady hélt frá Lissabon í Portúgal á mánudagsmorgun í …
Morning Lady hélt frá Lissabon í Portúgal á mánudagsmorgun í lokalegg sinn frá Asíu til Drammen og verður stærsta skip sem þangað hefur nokkru sinni komið, 232 metra langt og tæp 71.000 brúttótonn. Til samanburðar má geta þess að stærð íslenska fiskiskipaflotans í árslok 2017 var um 160.000 brúttótonn samkvæmt tölum Hagstofunnar. Ljósmynd/Wallenius Wilhelmsen

Það er ekki léttvægt, hlutverkið sem hvíla mun í höndum Thomas Høvik, hafnsögumanns í Drammen í Noregi, eldsnemma á föstudagsmorguninn. Þá tekur hann við stjórn eins stærsta flutningaskips veraldar, og þess langstærsta sem nokkru sinni hefur lagst að bryggju hafnarinnar í Drammen, umsvifamestu innflutningshafnar Noregs þegar nýjar bifreiðar eiga í hlut.

Eins og hin árrisula rósfingraða morgungyðja kom í ljós í Hómersþýðingu Sveinbjarnar rektors, er það Morning Lady, tæplega 71.000 brúttótonna, 232 tveggja metra langt og 32 metra breitt bílaflutningaskip norsk-sænsku útgerðarinnar Wallenius Wilhelmsen, sem birtist íbúum Drammen á föstudaginn með 6.500 glænýja bíla innbyrðis, síðasta höfn var Lissabon í Portúgal.

Um 100 metra breitt sund að fara

„Þegar við siglum svona stóru skipi inn höfum við ekki úr miklu plássi að moða,“ segir Høvik hafnsögumaður í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en hann hefur varið mörgum klukkustundum í hermi sem gerir honum kleift að æfa sig í siglingunni inn til Drammen sem ekki er heiglum hent, þar er um hið rúmlega 100 metra breiða Svelviksund að fara þar sem straumarnir eru sterkir og ekkert má út af bregða, enda ristir Morning Lady 8,2 metra með núverandi farm, en heildarflutningsgetan er þó enn meiri, 7.800 bílar.

Lóðsinn fer um borð í Morning Lady þegar við Færder, eyju úti fyrir Tønsberg, þaðan sem siglt er upp Ytri-Óslóarfjörðinn og af honum inn Drammensfjörðinn. Á tólf ára ferli hefur Høvik aldrei  undirbúið innsiglingu í hermi, en nú er mikið í húfi.

Thomas Høvik, hafnsögumaður í Drammen, á verðugt verkefni fyrir höndum …
Thomas Høvik, hafnsögumaður í Drammen, á verðugt verkefni fyrir höndum á föstudagsmorguninn. Hér æfir hann siglinguna inn til Drammen í hermi og spreytir sig þar á mismunandi hafstraumum og vindstyrk. Høvik kveður vélar- eða stýrisbilun það versta sem upp geti komið á ögurstundu. Ljósmynd/Elise Rusten/Kystverket

„Hermisiglingin gekk mjög vel. Við sigldum gegnum sundið með nokkrum mismunandi útgáfum af vindi og straumum og prófuðum líka að notast við stærra skip en þetta, til að átta okkur á hve mikið pláss við hefðum,“ sagði Høvik þegar Dagbladet ræddi við hann um verkefnið í apríl.

„Erfitt er að segja um hve mikið við höfum upp á að hlaupa til að forðast strand ef skipið víkur af leið. Við munum alla vega ekki geta fest það þversum, sundið er um 100 metrar þar sem það er mjóst, sem er innan við helmingurinn af lengd skipsins,“ sagði hann enn fremur, en norskir fjölmiðlar hafa eðlilega rifjað upp ógöngur flutningaskipsins Ever Given í Súez-skurðinum á vordögum í tengslum við för Morgunfrúarinnar um Svelviksundið.

Færni í Tetris kostur

„Við fáum yfirleitt 2.500 bíla á viku en nú fáum við 6.500 í einu lagi,“ segir Tom Egil Johannesen við NRK, en hann starfar hjá Motorships AS og ber hitann og þungann af því að losa farm Morning Lady á föstudaginn og næstu daga sem gerist þannig að 20 manns á hans vegum fara um borð í flutningaskipið og aka nýju bílunum einfaldlega í land.

Svona lítur Svelviksundið út á Google Maps. Um þetta nálarauga, …
Svona lítur Svelviksundið út á Google Maps. Um þetta nálarauga, sem þó er rúmlega 100 metra breitt, þarf Høvik lóðs að stýra Morning Lady styrkri hendi áður en komið er inn á sjálfan Drammenfjörðinn sem er nyrðra hafsvæðið á myndinni. Skjáskot/Google Maps

Starfsfólk hafnarinnar í Drammen kallar ekki allt ömmu sína, 70 prósent allra bíla sem fluttir eru inn til Noregs fara um höfnina, mest hafa komið þangað 111.000 bílar sama árið og meira að segja kórónuárið 2020 voru þeir 98.882, um helmingur rafknúinn, en 56 prósent nýrra seldra bíla í Noregi í marsmánuði voru rafmagnsbílar.

Og pláss er sannarlega takmörkuð auðlind við höfnina, þar stendur að jafnaði bíll við bíl svo langt sem augað eygir.

Ivar Vannebo aðstoðarhafnarstjóri segir hér komið lúxusvandamál hafi einhvern tímann verið ástæða til að nota það hugtak. „Þetta er skemmtileg áskorun. Það verður spennandi að sjá hvernig 2021 þróast, nýir bílar rokseljast um þessar mundir,“ segir hann við NRK og bætir því við að færni í tölvuleiknum Tetris í barnæsku sé haldgott veganesti hafnarstarfsmanna Drammen á 21. öldinni, þangað hafa komið 70.000 bílar síðasta hálfa árið og standa skipulagsbreytingar nú fyrir dyrum, meðal annars stækkun hafnarsvæðisins um 90.000 fermetra, en núverandi skipulag býður ekki upp á stæði fyrir „nema“ 10.000 bíla.

Bein útsending á NRK

„Einna mikilvægast er að við fáum aukna flutningsgetu með járnbrautinni,“ segir Vannebo, en stór hluti nýju bílanna fer til umboða sinna með flutningalestum. Flutningur með vörubifreiðum sé þó einnig snar þáttur en skipulagið sé þó ávallt alfa og ómega hafnarinnar í Drammen, alls hafi 2.000 manns sitt lifibrauð af umsvifum hennar beint og óbeint.

Það er ekki fyrir hvern sem er að finna stæði …
Það er ekki fyrir hvern sem er að finna stæði við höfnina í Drammen þar sem þó er pláss fyrir 10.000 bíla í einu. Á föstudaginn koma þangað 6.500 nýir bílar. Ljósmynd/Drammen Havn

NRK verður með beina útsendingu á vefsíðu sinni og NRK2 frá klukkan 05:30 að norskum tíma, 03:30 að íslenskum, á föstudagsmorgun og verður sjónvarpsfólk hvort tveggja um borð í Morning Lady og á kæjanum þar sem allt verður að ganga fullkomlega hnökralaust fyrir sig þegar Thomas Høvik lóðs stýrir dýrum knerri til hafnar í Drammen.

NRK

NRKII (bílaflutningar til Drammen)

Dagbladet

För skipsins á MarineTraffic

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert