Hvítum hafi verið bjargað á undan svörtum

Björgunaraðilar fluttir til Palma í kjölfar árásarinnar í mars.
Björgunaraðilar fluttir til Palma í kjölfar árásarinnar í mars. AFP

Hvítu fólki var bjargað fyrst í rýmingu í bænum Palma í Mósambík í mars þegar hersveitir tengdar Ríki íslams réðust á bæinn. Þetta kemur fram í skýrslu Amnesty International um björgunaraðgerðirnar. 

Í skýrslu samtakanna, sem unnin var upp úr viðtölum við tólf svarta eftirlifendur, kemur fram að jafnvel dýrum hafi verið bjargað á undan svörtu fólki af þyrlu sem ferjaði íbúa frá hóteli þar sem þeir höfðu leitað skjóls. 

„Hvítir verktakar voru fluttir í öruggt skjól á undan svörtum íbúum,“ segir í skýrslunni. Þar kemur einnig fram að hótelstjórinn hafi tekið tvo schäfer-hunda í hans eigu með sér í þyrluna á meðan manneskjur voru skildar eftir. 

Dyck Ráðgjafahópur (DAG) sem er einkafyrirtæki sem ráðið var til að aðstoða yfirvöld í baráttu þeirra við vígamenn og höfðu umsjón með björgunaraðgerðunum hafa vísað ásökunum Amnesty á bug. 

Vígamenn réðust á strandbæinn 24. mars. Um 200 manns, aðallega ríkisstarfsmenn og erlendir verkamenn sem unnu að verkefni í bænum, leituðu skjóls á Amarula Palma-hótelinu meðan á árásinni stóð. Samkvæmt Amnesty voru 20 hvítir einstaklingar í hópnum sem leitaði á hótelið. 

„Við vildum ekki að hvíta fólkinu yrði öllu bjargað, því ef allt hvíta fólkið færi, þá yrðum við skilin eftir til að deyja. Við heyrðum í þeim ræða um að taka alla hvíta og skilja þá svörtu eftir,“ sagði einn eftirlifendanna við Amnesty. 

Annar eftirlifandi, Suður-Afríkumaðurinn Wesley Nel, sem er hvítur á hörund og missti bróður sinn í árásinni hefur þó aðra sögu að segja: „Ég var þarna. Við vörum öll skilin eftir, hvítir og svartir. En það vorum við „hvíta fólkið“ sem björguðum 150 íbúum með því að koma okkur öllum í burtu,“ sagði Nel í kjölfar þess að skýrslan var birt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert