Enginn endir í augsýn

Loftárásir Ísraelshers, sem lét sprengjum rigna yfir Gaza-svæðið í nótt, var sú mesta síðan átök hófust á milli þeirra og palestínskra skæruliða. Átökin sem hafa staðið yfir í fimm daga hafa orðið 119 Palestínumönnum og 8 Ísraelum að bana og virðast engan enda ætla að taka.

Ofbeldisbylgja gengur einnig yfir innan Ísraels en samkvæmt breska ríkisútvarpinu hafa brotist út slagsmál á milli fylkinga gyðinga og araba innan í landinu. Forseti landsins hefur varað við að borgarastyrjöld gæti brotist út ef ekkert yrði gert. Varnarmálaráðherra Ísraels, Benny Gantz, hefur fyrirskipað að veita öryggissveitum liðsauka til þess að bæla niður óróann í landinu.

Lögreglan í Ísrael hefur verið ásökuð um að líta framhjá ofbeldi gegn íbúum Ísraels af arabískum ættum. Talsmenn lögreglunnar neita þessum ásökunum og segir að þessir hópar beri sjálfir ábyrgð á mestum hluta ofbeldisins.

Skutu í átt að líbönskum mótmælendum

Ísraelsher skaut fyrr í dag viðvörunarskotum í átt að mótmælendum sem fóru inn á landssvæði Ísraels frá Líbanon í leyfisleysi til þess að sýna stuðning við málstað Palestínumanna. Samkvæmt Ísraelsher höfðu mótmælendurnir skemmt landamæragirðingu á milli ríkjanna og kveikt eld áður en þeir hurfu aftur til Líbanon.                           

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Net­anja­hú hefur lýst því yfir að heraðgerðir Ísraels gegn palestínskum skæruliðum muni halda áfram eins lengi og þess krefst. Þetta sagði hann í tilkynningu sem var birt á Twitter í morgun. Einn af aðalráðgjöfum Net­anja­hú hefur jafnframt lýst því yfir að ekki sé hægt að binda enda á átökin án þess að binda enda á Hamas-samtökin.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna António Guterres hefur beðið báðar fylkingar um að binda enda á átökin sem fyrst. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar á sunnudaginn um átökin en upphaflega stóð til að funda í dag.

Sprengjuárásir Ísraelshers og palestínskra skæruliða hafa orðið meira en hundrað …
Sprengjuárásir Ísraelshers og palestínskra skæruliða hafa orðið meira en hundrað manns að bana. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert