Lenti á fjórum fótum eftir stökk frá fimmtu hæð

Kötturinn stökk út um gluggann.
Kötturinn stökk út um gluggann. Skjáskot úr myndskeiðinu

Köttur lifði af eftir að hafa stokkið út um glugga á fimmtu hæð fjölbýlishúss í Chicago til að forðast eldsvoða.

Starfsmaður slökkviliðsins í borginni var að taka myndskeið af byggingunni á meðan verið var að slökkva eldinn þegar svartur köttur birtist skyndilega úr reyknum og stökk í gegnum brotna rúðu, að sögn The Guardian.

Sem betur fer lenti læðan ekki á vegg á jörðu niðri heldur á grasbletti. Þar lenti hún á fjórum fótum og hljóp síðan í burtu, fólki á staðnum til mikillar undrunar.

„Hún fór undir bílinn minn og faldi sig þangað til henni leið betur nokkrum mínútum síðar. Þá kom hún út og reyndi að komast upp veggi byggingarinnar til að komast aftur inn,“ sagði Larry Langfort, talsmaður slökkviliðsins, sem ætlaði að reyna að finna eigendurna.

Enginn slasaðist í eldsvoðanum, sem varð í einni íbúð. Ekki er ljóst um eldsupptök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert