Dularfull froða leiddi til sakamálarannsóknar

Yfirborð árinnar er þakið hvítri froðu.
Yfirborð árinnar er þakið hvítri froðu.

Sakamálarannsókn er hafin á hættulegri mengun í ánni Ouseburn í Newcastle í Bretlandi. Umhverfisstofnun Bretlands hefur reynt að leiða í ljós hvers vegna ákveðnir hlutar árinnar hafi verið þaktir dularfullri hvítri froðu síðan í apríl. 

BBC greinir frá því að upptök hinnar óþekktu mengunar hafi verið „einangruð“ og að unnið verði að því að hreinsa ána. Íbúum hefur verið ráðlagt að fara ekki nærri ánni. 

Umhverfisstofnunin telur það líklegt að mengunarvaldurinn hafi borist í ána í gegnum fráveitu regnvatns og biðlar til íbúa að hella engum efnum niður í slík afrennsli. Þá staðfestir stofnunin að í gangi sé rannsókn sakamáls vegna atviksins. Takist að sækja einhvern til saka verður viðkomandi sektaður. 

Árið 2011 átti svipað atvik sér stað þegar hvít froða myndaðist á yfirborði árinnar. Þá lá uppi grunur um að þvottaefni væri sökudólgurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert