Bandaríkin þurfi að axla ábyrgð

Palestínskar björgunarsveitir með lík barns sem varð undir heimili sínu …
Palestínskar björgunarsveitir með lík barns sem varð undir heimili sínu í kjölfar loftárásanna. AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar í dag um blóðug átök milli Ísraelshers og palestínskra vígasveita Hamas. Fulltrúar Ísraels komu fyrir ráðið fyrir skömmu. 

Fulltrúi Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum sagði ráðinu að Hamas hefði lagt á ráðin um það ofbeldi sem átt hefur sér stað á svæðinu síðustu daga. Þá fór hann fram á það við ráðið að vígasveitin verði formlega fordæmd af ráðinu. 

„Þetta var algjörlega að yfirlögðu ráði af hálfu Hamas í því skyni að fá pólitísk völd,“ sagði Gilad Erdan, fastafulltrúi Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum. 

Erdan kenndi Hamas um að spenna á milli landanna hefði farið stigmagnandi síðustu daga og sagði að ástæða þess væri pólitísk valdabarátta innan Palestínu. 

Hamas segir að vígasveitir hafi skotið eldflaugum í átt að Ísrael eftir að Ísraelsher fór inn í Al-Aqsa-moskuna í Jerúsalem. Samtökin höfðu varað Ísrael við árásum ef herinn yfirgæfi ekki moskuna. Mikil spenna hefur verið á milli þjóðanna vegna brottflutnings palestínskra fjölskyldna úr Sheikh Jarrah-hverfinu síðustu vikur. 

„Haldið þið virkilega að það sé vegna eignadeilna að Hamas standi fyrir stórum árásum á Ísraelska borgara,“ sagði Erdan, sem þakkaði Bandaríkjunum, sem höfðu látið fresta fundi ráðsins. 

„Ísrael reynir allt til þess að forðast mannfall meðal almennra borgara; Hamas gerir allt til þess að auka mannfall almennra borgara,“ sagði Erdan. 

Hið minnsta 55 börn og 33 konur eru á meðal þeirra 190 íbúa Gaza-svæðisins sem látist hafa í árásum Ísraelshers síðan á mánudag. Tíu ísraelskir borgarar, þeirra á meðal tvö börn, hafa látist í árásum Hamas. 

Segir Bandaríkin þurfa að axla ábyrgð 

Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, sagði á fundi ráðsins að Bandaríkin þurfi að axla ábyrgð í málinu. Yi sagði það hryggilegt að Bandaríkin hefðu komið í veg fyrir neyðarfund ráðsins síðasta föstudag og sagði að meira þurfi til ef stöðva eigi átökin. 

„Hryggilega, einfaldlega vegna fyrirstöðu eins lands, hefur Öryggisráðið ekki getað talað einni röddu,“ sagði Yi, sem kallaði eftir því að samið yrði um vopnahlé án tafar og að Öryggisráðið gripi til aðgerða, meðal annars með því að ítreka stuðning sinn við tveggja ríkja lausn á svæðinu. 

Ítrekaðar loftárásir voru gerðar á Gaza-svæðið í nótt og fjölda manns er saknað. Björgunarsveitir hafa í dag reynt að ná til íbúa sem fest hafa undir rústum heimila sinna. 

„Ég hef aldrei fjallað um loftárásir af þessari stærð, alls staðar á Gaza eru sprengingar, það er erfitt að ná sambandi við stjórnvöld til að komast að því hvar sprengingarnar eru. Byggingin sem ég bý í í vesturhluta borgarinnar hristist eins og í jarðskjálfta. Geðshræringin, óreiðan, börn og konur í byggingu sem hýsir yfir 200 manns sem öskra,“ segir fréttaritari BBC á Gaza um ástandið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert