Lík 6 ára stúlku fundið í sjónum við Tenerife

Stúlkan fannst þúsund metra dýpi undan ströndum Tenerife í gærkvöldi. …
Stúlkan fannst þúsund metra dýpi undan ströndum Tenerife í gærkvöldi. Mynd úr safni. AFP

Lík sex ára stúlku fannst í hafinu undan ströndum spænsku eyjarinnar Tenerife sem er meðal vinsælustu áfangastaða ferðamanna til Spánar. Sex vikur eru síðan stúlkunni var rænt ásamt systur hennar af föður þeirra. Málið hefur vakið mikla reiði á Spáni.

Þann 27. Apríl var tilkynnt að Olivíu og systur hennar ,Önnu, sem einungis var eins árs, væri saknað. Faðir þeirra hafði hringt í fyrrverandi eiginkonu sína og rætt við hana með „kveðju tón“ hefur AFP eftir spænsku lögreglunni. Daginn eftir fannst bátur í eigu föðurins og barnabílstóll fljótandi í sjónum undan ströndum Tenerife.

Í gærkvöldi fundu síðan leitarsveitir líkama barns á sjávarbotni, líkið reyndist við athugun vera Olivía. Fram kemur í spænskum miðlum að lík stúlkunnar hafi fundist á þúsund metra dýpi pakkað í poka og bundið við akkeri.

Önnu og föðurnum er enn leitað. Heimildamenn herma að sést hafi til þeirra daginn sem þau hurfu er faðirinn var að bera töskur í bátinn.

Spánn í áfalli

„Spánn er í áfalli,“ sagði Pedro Sanchez, forsætisráðherra landsins. „Ég get ekki ímyndað mér sársauka móður Önnu og Olivíu sem hurfu á Tenerife,“ sagði hann á Twitter. Letizia spánardrottning lýsti einnig sorg sinni er hún frétti af málinu.

Tenerife er vinsæll áfangastaður ferðamanna.
Tenerife er vinsæll áfangastaður ferðamanna. AFP

„Þetta var það síðasta sem við bjuggumst við. Við vorum öll að vona að við myndum finna stelpurnar með Tómasi sem væri að sjá um þær,“ sagði Joaquin Amills, talsmaður fjölskyldunnar, í viðtali í ríkissjónvarpi Spánar.

39 börn myrt

Irene Montero, ráðherra jafnréttismála, sagði ofbeldi af þessum toga væri ólíðandi og að það væri forgangsmál hjá ríkisstjórninni að stöðva það. En opinberar tölur sýna að 39 börn á Spáni hafa verið myrt af feðrum sínum eða núverandi eða fyrrverandi stjúpfeðrum frá árinu 2013.

Kvenréttindahópar hafa boðað mótmæli í spænskum borgum á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert