Segja meðferðina glæpi gegn mannkyni

Mótmæli til stuðnings Úígúrum og fleiri minnihlutahópum í Washington í …
Mótmæli til stuðnings Úígúrum og fleiri minnihlutahópum í Washington í Bandaríkjunum. AFP

Líta má á meðferðina á hundruðum þúsunda Úígúr-múslima í Kína sem glæpi gegn mannkyninu. Þetta kemur fram í skýrslu Amnesty International.

Í 160 blaðsíðna skýrslu mannréttindasamtakanna eru vitnisburðir frá fólki sem var haldið föngnum í búðum í héraðinu Xinjiang í norðvesturhluta Kína.

Um er að ræða „kerfisbundna fjöldafangelsun, skipulagða af ríkinu, pyntingar og ofsóknir sem má líta á sem glæpi gegn mannkyninu“, að því er segir í skýrslunni.

Þar segja Amnesty International að kínversk yfirvöld hafi gripið til „öfgafullra aðgerða“ frá árinu 2017 gegn Úígúrum og fólki frá öðrum minnihlutahópum af tyrkneskum uppruna.

„Kínversk yfirvöld hafa búið til dystópískt umhverfi á gríðarlega stórum skala,“ sagði Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty.

„Minnihlutahópar múslima verða fyrir glæpum gegn mannkyninu og öðrum mannréttindabrotum,“ bætti hún við og sagði að meðferðin á þeim „ætti að hrista upp í samvisku mannkyns“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert