14 særðir eftir skotárás í Texas

Lögreglan að störfum á vettvangi eftir skotárásina. Enn er skotmaðurinn …
Lögreglan að störfum á vettvangi eftir skotárásina. Enn er skotmaðurinn ófundinn. AFP

Skotárás braust út í fjölförnu hverfi í Austin í Texas í Bandaríkjunum um klukkan hálftvö í nótt að staðartíma.

Fjórtán særðust og voru fluttir á sjúkrahús samkvæmt fréttaflutningi vestra og enn er enginn grunaður um verknaðinn. 

Lögregla á svæðinu brást við útkalli vegna fjölda skota rétt fyrir klukkan hálftvö, þar sem hún kom að miklum mannfjölda á hlaupum. 

Fram kemur á blaðamannafundi hjá lögreglunni í Austin að viðbragð lögreglu hafi verið hratt og strax hafi verið hafin endurlífgun og fyrsta hjálp veitt þeim er urðu fyrir skotum. 

Lögreglan hefur fengið lýsingu á mögulegum skotmanni, en enn liggur ekki fyrir hvort einn eða fleiri voru að verki. Þá kemur fram í máli lögreglu að atvikið virðist vera einangrað en rannsókn stendur enn yfir. 

„Við búum ekki yfir neinum upplýsingum um að árásinni hafi verið beint sérstaklega að ákveðnu fólki,“ sagði talsmaður lögreglu í Austin í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert