Handteknir fyrir að gefa lögreglu ekki hamborgara

Hamborgarinn tengist fréttinni ekki.
Hamborgarinn tengist fréttinni ekki.

Starfsmenn skyndibitakeðjunnar Johnny & Jugnu í Pakistan voru færðir í næturlangt varðhald fyrir að gefa lögregluþjónum ekki hamborgara án endurgjalds. Talsmaður keðjunnar segir atvikið ekki einsdæmi.

Atvikið átti sér stað seint á laugardagskvöld í borginni Lahore en talsmenn keðjunnar segja atvikið hafa átt sér nokkurn aðdraganda að því er fram kemur í frétt BBC.

Viðskiptavinir sátu eftir með sárt ennið

Í yfirlýsingu frá Johnny & Jugnu segir að hópur lögregluþjóna hafi komið tveimur dögum áður á staðinn og beðið um ókeypis hamborgara. Starfsmenn keðjunnar hafi neitað þeirri ósk en lögregluþjónarnir hafi tekið því illa og mætt aftur daginn eftir með hótanir sem stigmögnuðust.

Á laugardeginum hafi lögregla síðan handtekið vaktstjórann án þess að gefa upp sakir. Að því loknu hafi aðrir starfsmenn á vaktinni verið færðir í varðhald þar sem þeir voru beittir harðræði. Við handtökuna hafði starfsmönnum hvorki gefist tími til þess að slökkva á tækjum eldhússins né klára að elda og afhenda pantanir viðskiptavina.

Lögregluþjónarnir níu voru leystir frá störfum. Forsætisráðherra Pakistans, Imran Khan, hafði áður gagnrýnt yfirvöld í Punjab-héraðinu fyrir að ráða kunningja til að stjórna löggæslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert