Fjölskyldu sleppt af Jólaeyjum eftir þrjú ár

Twitter/Home To Bilo

Áströlsk yfirvöld hafa látið lausa úr haldi fjölskyldu flóttamanna sem dvalið hefur á Jóaleyjum frá 2018, eftir að yngra barn fjölskyldunnar var flutt til meginlands Ástralíu vegna veikinda. 

Fjölskyldan fær nú að búa saman í Perth á meðan unnið er að lagalegum hliðum málsins. 

Hin fjögurra ára Tharnicaa Murugappan var flutt á sjúkrahús í Perth í síðustu viku eftir að hafa fengið blóðsýkingu. Ástand Tharnicaa vakti upp áhyggjur almennings yfir velferð fjölskyldunnar. 

Alex Hawke, ráðherra útlendingamála í Ástralíu, segir að fjölskyldufaðirinn Nades og eldra barn fjölskyldunnar Kopika, 6 ára, verði flutt til Perth á mánudag þar sem Tharnicaa er fyrir ásamt móður sinni Priya. Fjölskyldan hefur verið aðskilin í yfir viku. 

Fjölskyldan mun búa í húsnæði á vegum stjórnvalda í úthverfi Perth undir eftirliti. Þau verða þó frjáls ferða sinna á meðan Tharnicaa fær meðferð á sjúkrahúsi. Fjölskyldan hefur undanfarin ár búið í flóttamannamiðstöð (e. detention compound) á Jólaeyjum þar sem hún var undir daglegu eftirliti öryggisvaraða. 

Auk þess að hafa fengið blóðsýkingu er Tharnicaa með lungnabólgu og segir fjölskyldan að læknisaðstoð á eyjunni hafi ekki verið fullnægjandi. 

For­eldr­ar Tharnicaa eru flótta­menn frá Sri Lanka sem komu til Ástr­al­íu sjó­leiðis fyr­ir tæp­um ára­tug í leit að hæli. Þau komu sér fyr­ir í bæn­um Biloela í Qu­eens­land þar sem dæt­ur þeirra tvær eru fæddar. 

Yf­ir­völd fluttu fjöl­skyld­una úr landi árið 2018. Vin­ir fjöl­skyld­unn­ar í Biloela börðust fyr­ir því að hún fengi áfram að dvelja í bæn­um og fór málið í gegn­um öll dóm­stig Ástr­al­íu. Niðurstaða dóm­stóla var sú að ekki væri hægt að flytja fjöl­skyld­una úr landi og brugðust yf­ir­völd við með því að senda hana til Jóla­eyja.

Talsmenn fjölskyldunnar hafa fagnað flutningum yfir á meginlandið en kallað eftir því að fjölskyldunni verði veitt vernd og að hún fái að snúa aftur til Biloela. Síðustu daga hefur veru fjölskyldunnar á Jólaeyjum verið mótmælt í Sydney, Melbourne og víðar. 

Hawke hefur sagt að þrátt fyrir flutninginn breyti hann engu um aðgang fjölskyldunnar að dvalarleyfi. Komi ekki í ljós að fjölskyldan eigi rétt á vernd verður hún beðin um að fara til Sri Lanka. Yfirvöld hafa tvisvar reynt að vísa fjölskyldunni úr landi á þeim grundvelli að hún eigi ekki rétt á vernd, en hún tilheyrir ættflokki Tamila. 

Frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert