Lést þegar bifreið ók á mótmælendur

Minningarathöfn fyrir Winston Boogie Smith.
Minningarathöfn fyrir Winston Boogie Smith. AFP

Tveggja barna móðir lést í árekstri meðan á mótmælum stóð í borginni Minneapolis í Minnesota-ríki á sunnudagskvöld. 

BBC greinir frá því að Deona Knajdek, 31 árs, hafi verið að nota bifreið sína til að loka götu fyrir mótmælendur þegar ekið var á hana. Ökumaður bifreiðarinnar var handtekinn á vettvangi. Ekki liggur fyrir hvort hann hafi keyrt á bifreið Knajdek í átt að mótmælendum að yfirlögðu ráði. 

Mótmælendur hafa síðustu vikur krafist frekari upplýsinga um dauða svarts manns, Winstons Boogie Smith, sem var skotinn til bana af lögreglu 3. júní. 

Knajdek lést á sjúkrahúsi í kjölfar árekstursins. Annar mótmælandi slasaðist og fékk aðhlynningu á sjúkrahúsi. Lögregla segir að ökumaður bifreiðarinnar sé grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. 

Móðir Knajdek, Debbie Kenney, fór á vettvang slyssins á mánudag. „Hún vildi að þetta myndi skipta máli, hún vildi að svört líf skiptu máli og að þetta hætti allt saman,“ sagði Kenney við Star Tribune. 

Garrett Knajdek, bróðir Deona, segir að systir sín hafi flutt frá Georgíu-ríki til Minneapolis fyrir einu og hálfu ári til að geta verið með dætrum sínum sem eru 11 og 13 ára gamlar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert