Hermenn fá ekki greitt vegna kreppu

Hermenn í líbanska hernum fá ekki greidd laun vegna efnahagsástandsins …
Hermenn í líbanska hernum fá ekki greidd laun vegna efnahagsástandsins í ríkinu. AFP

Yfirvöld í Líbanon eru ófær um að greiða hermönnum sínum laun. Stjórn hersins greindi frá þessu í aðdraganda ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem óskað verður eftir fjárhagsaðstoð sem og ýmsum hjálpargögnum. 

Ráðstefnan fer fram í Frakklandi á morgun en er einnig í fjarfundaformi. Alla jafna eru fundir sem þessir nýttir til að útvega nauðsynlegan búnað fyrir herinn en í þetta sinn er óskin meira í líkingu við þarfir ríkja þar sem átök standa yfir eða náttúruhamfarir. 

„Við þurfum mat, heilbrigðisþjónustu og aðstoð við að greiða hermönnum laun,“ segir heimildamaður í líbanska hernum í samtali við AFP-fréttastofuna sem kýs að koma ekki fram undir nafni. Segir hann gengislækkun líbanska pundsins hafa þau áhrif að hermennirnir þurfi á sárri hjálp að halda þar sem laun þeirra séu engan veginn nóg. Efnahagskreppan í Líbanon er sú versta frá því um miðja 19. öld að mati Alþjóðabankans. 

Herinn hefur varað við stöðunni frá því um mitt síðasta ár. „Við erum að gera hið ómögulega til að lina efnahagslegar hremmingar hermanna okkar,“ segir Joseph Aoun, yfirmaður líbanska hersins. Ástandið er orðið það slæmt að nú er eina leiðin að hans mati að leita til bandamanna. 

Um 20 ríkjum, þar á meðal Bandaríkjunum, Evrópusambandsríkjum, Arabaríkjum, Rússlandi og Kína, hefur verið boðið að sitja ráðstefnuna ásamt fulltrúum Sameinuðu þjóðanna. 

Yfirvöld í Frakklandi hafa samþykkt að senda lækningatæki til að aðstoða í baráttunni við kórónuveiruna sem og varahluti fyrir bíla og þyrlur hersins. Þá hafa Bandaríkin heitið því að auka fjárframlög sín til hersins um 15 milljónir Bandaríkjadala og verður heildarframlagið 120 milljónir dollara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert