Aflétta ferðatakmörkunum fyrir fullbólusetta

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Stjórnvöld í Bretlandi munu aflétta ferðatakmörkunum fyrir þá sem eru fullbólusettir og opna landamæri sín að fullu fyrir ferðamönnum frá Evrópu og Norður-Ameríku.

Forsætisráðherrann Boris Johnson hefur ákveðið að þetta verði raunin frá og með 16. ágúst.

Enn fremur muni fullbólusett fólk ekki þurfa að gangast undir skimun, reynist það hafa verið í návígi við manneskju smitaða af kórónuveirunni, nema það finni sjálft fyrir einkennum.

Tilfellum fækkar eftir afléttingu

Greindum tilfellum í Bretlandi hefur farið fækkandi sjö daga í röð, sem vakið hefur athygli vegna þess að margs konar takmörkunum var aflétt í landinu 19. júlí.

Í umfjöllun Telegraph segir að ráðherrar í ríkisstjórn Johnsons hafi að undanförnu varað við því að kostnaður við að hamla ferðamennsku og viðskiptaferðum til landsins sé að skaða efnahag landsins, á sama tíma og meirihluti Evrópuríkja hafi opnast að nýju.

Í um tvær vikur hefur ríkisstjórnin sætt gagnrýni fyrir annars konar faraldur, það er nokkurs konar sóttkvíarfaraldur af völdum rakningarforrits stjórnvalda.

Hundruð þúsunda starfs­manna hafa fengið skeyti í gegn­um for­ritið um að ein­angra sig heima. Rík­is­stjórn­in hef­ur brugðist við og veitt ríf­lega 10 þúsund starfs­mönn­um mat­vöru­versl­ana und­anþágu frá sótt­kvínni gegn því að þeir gang­ist und­ir veiru­próf dag­lega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert