Setuverkfall vegna „ólympísks fangelsis“

Ólympíunefnd Hollands telur þessar aðstæður óviðunandi og mun gera athugasemd …
Ólympíunefnd Hollands telur þessar aðstæður óviðunandi og mun gera athugasemd við alþjóðlegu Ólympíunefndina. AFP

Smit kom upp í hópi hollenskra ólympíufara og eru sex einstaklingar nú í einangrun á hóteli. Telja þau aðstæður þar óviðunandi. Hópurinn greip til setuverkfalls í mótmælaskyni þar sem hann krafðist þess að fá ferskt loft. Komið var til móts við þær óskir með því að veita fimmtán mínútna gluggatíma á dag. 

Keppendur á Ólympíuleikunum eru skimaðir á hverjum degi og ef þeir reynast jákvæðir þurfa þeir að fara í einangrun eða á spítala. Yfir 124.000 reglubundnar skimanir hafa verið gerðar en aðeins 22 hafa greinst jákvæðir.

Ekkert ferskt loft

Reshmie Oogink átti að keppa í taekwondo í gær en gat það ekki vegna þess að hún er með Covid-19. Oogink hefur leyft fylgjendum sínum á Instagram að fylgjast vel með dvöl sinni í einangrun. Hún sagðist, í gamni, vera komin í ólympískt fangelsi. 

Hún lýsti því hvernig hún hefði verið lokuð inni í nokkra daga án þess að fá ferskt loft. Að sögn þeirra keppenda sem eru í einangrun eru allir gluggar lokaðir og dyr opnast ekki heldur. Fólkið getur aðeins farið út úr herbergjunum sínum til að sækja sér mat, sem er að þeirra mati tilbreytingarsnauður. 

Ólympíunefnd Hollands telur þessar aðstæður óviðunandi og mun gera athugasemd við alþjóðaólympíunefndina. 

Sátu kyrr í sjö eða átta klukkustundir

Candy Jacobs, keppandi í hjólabrettafimi fyrir hönd Hollands, sagði frá verkfallinu sem átti sér stað í gær. Henni líður vel líkamlega en andlega er hún uppgefin eftir átta daga einangrun. 

„Við fengum okkur sæti í anddyri hótelsins og ákváðum að hreyfa okkur ekki fyrr en einhverju yrði breytt. Það tók sjö eða átta klukkustundir en á endanum komumst við að samkomulagi um að hvert okkar fengi að standa við opinn glugga í 15 mínútur á dag, undir eftirliti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert