Gripinn með blóðugan hníf á strönd

Tom Araya brá í brún þegar hann rakst á sjálfan …
Tom Araya brá í brún þegar hann rakst á sjálfan Michael Myers á förnum vegi ... Facebook

Lögreglan í Galveston í Texas fékk símtal á mánudaginn var, þess efnis að grímuklæddur maður með blóðugan hníf í greipum gengi laus á ströndinni. Laganna verðir fóru á stúfana, fundu manninn og tóku hann höndum. Maðurinn veitti enga mótspyrnu enda kom á daginn að hnífurinn var bitlaus og blóðið ekki ekta. Honum var sleppt að yfirheyrslu lokinni með áminningu fyrir ósæmilega hegðun.

... en tók gleði sína um leið og hann áttaði …
... en tók gleði sína um leið og hann áttaði sig á því að þetta var í reynd lögfræðingurinn Mark A. Metzger að sprella fyrir vegfarendur í Galveston. Facebook

Daginn eftir skráði maðurinn sig inn á Facebook til að gera grein fyrir gjörðum sínum. Hann heitir Mark A. Metzger, meira að segja sá III, og starfar sem lögfræðingur. En ekki hvað?

„Það sem mér gekk til var að koma með jákvæða strauma inn í eymdina þarna úti og kalla fram ofurlítinn hlátur og fá fólk til að brosa. Líf mitt hverfist um að endurheimta trúna á mannkynið með spé að vopni,“ skrifaði Metzger sem fengið hafði sér göngutúr á ströndinni í gervi hinnar kunnu kvikmyndapersónu Michaels Myers úr Halloween-myndunum frægu.

„Allt mitt líf hefur gengið út á þetta. Ekki er víst að aðferðir mínar virki á alla en ég er ekki í nokkrum vafa um að ég gleð fleiri en ég ergi.“

Sumir námu staðar til að taka mynd af sér með Metzger en aðrir létu sér fátt um finnast.

Kona að nafni Mycah Hatfield birti myndband af Metzger á Twitter með þessum orðum: „Þegar maður telur sig hafa séð allt, gengur einhver fram hjá manni á ströndinni í Galveston klæddur eins og Michael Myers í Halloween rétt áður en hitabeltisstormurinn Nikulás brast á.“

Gjörningurinn vakti það mikla athygli að sjónvarpsstöðin ABC13 fór að finna kappann. „Það hafa ekki allir skopskyn þarna úti og maður getur aldrei gert öllum til hæfis,“ sagði hann við ABC13.


Rakst á Tom Araya

Einn vegfarandi lét sér alls ekki bregða – enda ýmsu vanur þegar kemur að gerviblóði og sviðsettum limlestingum. Það var enginn annar en Tom Araya, söngvari þrassbandsins sáluga Slayer, en fyrir einhverja galna tilviljun eða hótfyndni guðanna bar fundum þeirra saman þennan dag.

„Hverjar eru líkurnar á því, þegar maður er að spauga með Galveston, að rekast á söngvara HELVÍTIS SLAYER!! Til hamingju með 26 ára brúðkaupsafmælið, Tom og Sandra,“ sagði Metzger og sló um sig með persónulegum upplýsingum úr málmheimum.

Araya, sem hefur búið lengi í Buffalo í Texas, var hinn almennilegasti og sat fyrir á myndum með grallaraspóanum. Skælbrosandi.

Í Snjáldrufærslunni veltir lögfræðingurinn fyrir sér hvað nákvæmlega hann hafi gert rangt og kallaði á handtöku og áminningu og kveðst ekki munu hika við að endurtaka leikinn í framtíðinni. „Ég myndi gera þetta aftur alla daga, allan daginn ... Það er ekki á hverjum degi sem maður hittir og spjallar við Tom Araya úr Slayer í miðjum grikk.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert