Beitir hungurverkfalli til að fá konuna sína heim

Richard Ratcliffe, eiginmaður Nazanin, fór í hungurverkfalli árið 2019 fyrir …
Richard Ratcliffe, eiginmaður Nazanin, fór í hungurverkfalli árið 2019 fyrir utan íranska sendiráðið og mun nú gera það aftur. AFP

Eiginmaður hinnar frelsissviptu bresk-írönsku Nazanin Zaghari-Ratcliffe, hefur ákveðið að grípa til hungurverkfalls í annað skiptið til þess að þrýsta á breska utanríkisráðuneytið að beita sér, af meiri þunga, fyrir því að ná konunni hans til baka úr fangelsi í Íran. 

Hungurverkfallið mun fara fram fyrir utan skrifstofur Utanríkisráðuneytisins í London. Richard Ratcliffe heitir maðurinn sem um ræðir en hann finnur sig knúinn til að bregða á þetta ráð eftir að írönsk yfirvöld gáfu út að eiginkona hans, hafi tapað áfrýjun sinni og verði gert að sitja annað ár í fangelsi. Að þeirri afplánun lokinni verður hún einnig látin sæta farbanni frá Íran.

Nazanin Zaghari-Ratcliffe, hefur nú þegar þurft að sitja inni í fimm ár fyrir njósnir, en hún var handtekin 2016. Hjónin eiga saman sex ára dóttur sem býr hjá föður sínum í London. 

Í frétt the Guardian kemur fram að bresk yfirvöld viðurkenni skuld við Íran, að upphæð 400 milljónir punda. Utanríkisráðuneytið heldur því fram að viðskiptaþvinganir hindri að þessi skuld verði greidd en ekki hafa verið gefnar nánari skýringar á þeirri afstöðu. 

Richard Ratcliffe harmar að þurfa að gípa aftur til hungurverkfalls, en fyrir tveimur árum beitti hann þessari sömu aðferð fyrir utan íranska sendiráðið, til þess að fá dóttur þeirra heim frá Íran, þar sem hún hafði búið hjá ömmu sinni meðan móðir hennar var í fangelsi.

Ýmsir stjórnmálamenn, til að mynd Tulip Siddiq, hafa talað máli Ratcliffe og telja að tími sé til kominn að greiða upp skuldina og fá Nazanin til Englands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert