Bjargvættir gripu í tómt

Hundarnir hafa verið fastir í nokkrar vikur vegna eldgossins.
Hundarnir hafa verið fastir í nokkrar vikur vegna eldgossins. AFP

Spænskar bjargvættir gripu í tómt þegar hundarnir, sem höfðu verið sjálfheldu vegna eldgossins á eyjunni La Palma, og átti að koma í öruggar hendur, voru horfnir.

Hundarnir höfðu orðið innlyksa í nokkrar vikur í yfirgefnum bæ vegna hraunflæðis á eyjunni La Palma, þar sem eldgos hefur staðið yfir frá því í síðasta mánuði. Hafa þeir eingöngu komist í þann mat sem hefur verið færður þeim með dróna.

Spánverjar höfðu staðið ráðalausir um hvernig koma mætti hundunum úr þessum aðstæðum þegar drónaflugmaðurinn Jaime Pereira bauð fram aðstoð sína. Fékk hann leyfi frá yfirvöldum í síðustu viku fyrir því að láta á það reyna hvort ekki væri hægt að sækja hundana með því að veiða þá í net og flytja þá á brott með öflugum drónabúnaði.

„Hundarnir eru í lagi“

Þegar á hólminn var komið síðasta fimmtudag greip Pereira hins vegar í tómt. Enga hunda var að finna á vettvangi, einungis skilaboð sem á stóð: „Verið sterk, La Palma. Hundarnir eru í lagi. Frá A-liðinu.“

„A-liðið“ er að líkindum tilvísun í frægan bandarískan sjónvarpsþátt frá níunda áratugnum, sem fól í sér áhættusöm glæfrabrögð.

Svæðið sem hundarnir voru fastir á hefur verið óaðgengilegt og því vekur hvarf hundanna margar spurningar. Hvorki hefur verið hægt að ferðast þangað fótgangandi eða með þyrlu.

Umfangsmikil leit að hundunum hefur ekki skilað neinum árangri og hefur því leitaraðgerðinni verið aflýst. Hingað til er það óleyst ráðgáta hver ku hafa bjargað hundunum eða með hvaða hætti.

Telja margir að dýraaðgerðasinnar hafi verið að verki, á meðan aðra grunar að eigandi hundanna gæti hafa átt hlut að máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert