Frétti af andláti Bryants á samfélagsmiðlum

Vanessa Bryant og Kobe Bryant.
Vanessa Bryant og Kobe Bryant. AFP

Vanessa Bryant, ekkja Kobes Bryants, sagðist hafa frétt af andláti eiginmanns síns þegar samfélagsmiðlatilkynningar birtust á síma hennar, nokkrum klukkustundum áður en andlátið var staðfest af lögreglunni í Los Angeles, að því er segir í frétt á vef CNN. 

Kobe Bryant og dóttir hans Gianna voru á meðal þeirra níu sem létust þegar þyrla brotlenti í Kaliforníu 26. janúar 2020.

„Ég hélt á símanum mínum því ég var augljóslega að reyna að hringja í manninn minn, og þá birtust margar tilkynningar þar sem stóð RIP Kobe,“ sagði Vanessa við skýrslustöku en að sögn BBC mun Bryant hafa frétt af slysinu frá aðstoðarmanni fjölskyldunnar sem sagði henni að fimm hefðu lifað af og hún talið líklegt að eiginmaður hennar og dóttir væru meðal eftirlifenda.

Óttast að myndir af látnum fjölskyldumeðlimum verði birtar

Skýrslutakan er hluti af málshöfðun Bryant gegn lögreglunni, slökkviliðinu og Los Angeles-sýslu fyrir að hafa tekið myndir á slysstað af líkamsleifum fórnarlamba sem talið er að séu af eiginmanni hennar og dóttur.

Þá sagði Bryant að enginn ætti að þurfa að þola þennan sársauka og óttast að myndir af látnum fjölskyldumiðlimum yrðu birtar.

Að sögn Bryant munu starfsmenn lögreglunnar hafa neitað að svara spurningum um ástand fjölskyldumeðlima hennar fyrr en lögreglumaðurinn Alex Villanuevea sagði henni persónulega að þau hefðu dáið.

„Og hann sagði: „Get ég eitthvað gert fyrir þig?“ Og ég sagði: „Ef þú getur ekki gefið mér manninn minn og barnið mitt aftur, vinsamlegast sjáðu til þess að enginn taki ljósmyndir af þeim,“ sagði Bryant í skýrslutökunni og bætti við að hún hefði beðið hann að sjá til þess að enginn kæmist inn á svæðið.

Bryant sagðist hafa óttast það að aðdáendur, drónar eða þyrlur tækju myndir af slysstaðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert