Kalla eftir harðari aðgerðum

Plan A felur í sér að óbólusettir eru hvattir til …
Plan A felur í sér að óbólusettir eru hvattir til að fara í bólusetningu. AFP

Verkamannaflokkurinn hefur kallað eftir því að ríkisstjórnin setji af stað Plan B til að takast á við kórónuveiruna á Englandi og að mælst verði til þess að fólk vinni að heiman og að grímuskylda verði sett á.

Rachel Reeves skuggafjármálaráðherra sagði við BBC að bólusetningaráætlanir gengju of hægt og yrðu að ganga betur. Hins vegar segir fjármálaráðherrann Rishi Sunak að gögnin bendi ekki til þess að tafarlaust verði að skipta yfir í Plan B.

Bresku læknasamtökin eru á meðal þeirra sem hafa kallað eftir því að einhverjar takmarkanir verði kynntar á nýjan leik á Englandi.   

Plan A, sem nú er í gangi, felur í sér að viðkvæmustu hópunum er boðinn örvunarskammtur, börn á aldrinum 12 – 15 áru eru bólusett með einum skammti og óbólusettir eru hvattir til að fara í bólusetningu.

Plan A verði að virka betur

„Ég held að það fyrsta sem stjórnvöld verði að gera sé að vinna harðar að því að Plan A virki,“ sagði Reeves og bætti við:

„Ef vísindamenn segja að við ættum að vinna að heiman og bera grímur þá ættum við að gera það. Svo við verðum að fá Plan A til að virka betur vegna þess að bólusetningaráætlunin hefur verið stöðvuð og þessar aðgerðir í Plani B verða að vera kynntar.“ 

„En það eru líka hlutir sem ekki eru í A eða B sem þarf að gera, eins og að borga lögbundin sjúkradagpening frá fyrsta degi smits og fá betri loftræstingu í almenningsrými.“

Spurð hvort innleiða ætti Plan B núna sagði hún: „Já, en við skulum ekki sleppa ríkisstjórninni heldur með Plan A.“

Einn af hverjum 55 á Englandi var með Covid-19 í síðustu viku, tölurnar hafa ekki verið hærri síðan í byrjun janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert