Enn ríkir óöld í Súdan

Ungur súdanskur drengur sveipaður þjóðfána landsins tekur þátt í mótmælunum.
Ungur súdanskur drengur sveipaður þjóðfána landsins tekur þátt í mótmælunum. AFP

Gríðarleg mótmæli hernaðarandstæðinga í Súdan hafa nú staðið í á þriðja dag eða síðan her landsins rændi völdum.

Forsætisráðherra landsins, Abdalla Hamdok, hefur nú fengið að snúa aftur til síns heima, eftir að herinn handtók hann og ráðherra í ríkisstjórn hans og flutti á leynilegan felustað. Grannt er fylgst með ferðum forsætisráðherrans og aðrir ráðherrar sitja enn í haldi hersins.

Að forsætisráðherrann sé snúinn til síns heima sló þó ekki á mótmælin og hefur lögregla beitt táragasi til þess að stilla til friðar.

Á mánudag létust minnst sjö og á annað hundrað særðust þegar súdanski herinn skaut á mótmælendur í Khartoum, höfuðborg landsins.

Valdarán hersins á aðfaranótt mánudags kom í kjölfar mikils ósættis milli stuðningsmanna stjórnvalda og stuðningsmanna Omars al-Bashir, fyrrverandi einræðisherra sem steypt var af stóli fyrir tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert