„Allt tal um fjölda flóttafólks í Evrópu er hæpið“

Flóttafólk hefur reynt við hættulegar ferðir yfir Ermasundið.
Flóttafólk hefur reynt við hættulegar ferðir yfir Ermasundið. AFP

„Rót vandans liggur í þeirri staðreynd að það er víða vopnuð átök, ofsóknir og mannréttindabrot, loftslagsbreytingar og fátækt sem valda því að fólk neyðist til að flýja heimalönd sín,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins, í samtali við mbl.is um fréttir af auknu streymi flóttafólks í Evrópu.

Þá hafa sérstaklega verið áberandi fréttir af flóttafólki sem fara í hættulegar ferðir yfir Ermasundið til þess að komast til Bretlands en í lok nóvember létust 27 í slíkri ferð, sem er mannskæðasta sjóslys flóttafólks á Ermarsundinu.

Atli Viðar Thor­sten­sen, sviðsstjóri hjálp­ar- og mannúðarsviðs Rauða kross­ins.
Atli Viðar Thor­sten­sen, sviðsstjóri hjálp­ar- og mannúðarsviðs Rauða kross­ins. Ljósmynd/Rauði krossinn

Atli nefnir sérstaklega að loftslagsbreytingar eru farnar að hafa áhrif á lífsskilyrði fólks, til dæmis aukin tíðni þurrka í Austur-Afríku og aukningu í ofsaflóðum.

„Allar þessar ástæður haldast í hendur eins og í Afganistan hafa bæði verið vopnuð átök, líkt og í sumar þegar talíbanarnir tóku völd, en einnig eru ofsalegir þurrkar í gangi. Afganar sjá því fram á hungursneyð fyrir allt að helming þjóðarinnar ef ekkert verður að gert,“ segir Atli og bætir við að Sómalía og víða í Afríku séu átök og þurrkar. „Þetta er auðvitað rót vandans.“

Ríki axli ábyrgð

Hann segir það mikilvægt að ríki axli ábyrgð og að aukið verði fjárframlag í þróunaraðstoð sem stuðli að velsæld, hagsæld og sjálfbærni þjóða sem glíma við þessa erfiðleika.

„Fólk vill langflest vera heima hjá sér, og það á almennt við flóttafólk eins og annað fólk. Þannig að það að leggjast á flótta er alltaf neyðarúrræði hjá yfirgnæfandi fjölda fólks.“

„Fæst ríki vildu gera nokkuð fyrir þennan fjölda“

Atli nefnir að fjöldi þeirra sem leiti til Evrópu sé einungis brota brot af fjölda flóttafólks á heimsvísu. Hann segir að árin 2015 og 2016 þegar að milljón manns hafi komið til Evrópu hafi það þótt ákveðin krísa.

„Þá kannski gleymist að horfa á Evrópu sem ríkustu heimsálfuna með 400 til 500 milljónir manna. Þannig að það var ekki flóttamanna krísa heldur pólitísk krísa þar sem að fæst ríki vildu gera nokkuð fyrir þennan fjölda,“ segir Atli og nefnir að mikilvægt sé að setja í samhengi önnur ríki sem taka við miklum fjölda flóttamanna svo sem Líbanon þar sem eru um sex milljónir íbúa og flóttafólk er um tvær milljónir.

„Allt tal um fjölda flóttafólks í Evrópu er hæpið og það þarf að minnsta kosti að setja það í samhengi og spyrja sig hvort þetta séu svo háar tölur að Evrópa sé að sligast undan þeim, og svo er auðvitað ekki og ætti aldrei að vera.“

Glæpagengi eina úrræði fólks

Innanríkisráðherrar nokkurra þjóða í Evrópu funduðu um málið síðustu helgi. Meðal þess sem ráðherrarnir telja mikilvægt að taka á eru glæpasamtök sem eru í því að smygla fólki.

Atli segir að fólk sem sé í algjörri neyð leiti allra leiða til þess að bjarga sér. „Til þess að bjarga lífi sínu þá þarf fólk að leita á náðir smyglara og glæpagengja. Þetta er eina úrræði fólks,“ segir Atli og bætir við að vissulega megi grafa undan þessum hópum en það þurfi pólitískan vilja til þess að aðstoða flóttafólk.

Hann segir að til skemmri tíma þurfi að greiða leiðir fyrir fólk til Evrópu með því að fá vegabréfsáritanir og stórauka fjölda kvótaflóttamanna.

„Til lengri tíma þurfa efnameiri þjóðir auðvitað að stórauka þróunarsamvinnuaðstoð við fátæk og óstöðug ríki til að koma í veg fyrir að fólki þurfi að leggjast á flótta. Þannig er hægt að ráðast að rót vandans,“ segir Atli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert