Gerðu grín að meintri ólöglegri jólaveislu

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands er undir miklum þrýstingi um að viðurkenna að jólaveisla hafi farið fram í Downingstræti 10 þann 18. desember í fyrra þar sem tæplega 50 manns komu saman. Slík veisla var á þeim tíma brot á sóttvarnareglum sem voru í gildi vegna kórónuveirufaraldursins.

Ekki er þó talið að forsætisráðherrann sjálfur hafi verið í veislunni.

Töluvert hefur verið fjallað um málið í breskum fjölmiðlum undanfarna daga. Enn fremur hefur færsla stjórnvalda á Twitter frá því 17. desember í fyrra verið grafin upp þar sem fram kemur að engin veisluhöld hafi verið leyfileg:

Býr sig undir spurningar

Breska sjónvarpsstöðin ITV birti í gærkvöldi myndskeið þar sem ráðgjafar Johnson grínast með meinta jólaveislu, 22. desember í fyrra eða fjórum dögum eftir að hún á að hafa farið fram.

Þar sést Aleggra Stratton, fyrrverandi talsmaður Johnson, búa sig undir hvers kyns spurningar frá blaðamönnum.

Viðskiptafundur

„Ég fór heim,“ segir Stratton og hlær þegar ráðgjafar Johnson spyrja hvort hún kannist við jólaveisluna.

Stratton er síðan spurð hvort Johnson hefði samþykkt slík veisluhöld og þá er kallað að þetta hafi ekki verið veisla; boðið hafi verið upp á vín og osta.

„Eru vín og ostar ekki í lagi? Þetta var viðskiptafundur,“ segir Stratton og uppsker hlátur.

„Þessi meinta veisla var viðskiptafundur og fjarlægðamörk voru ekki virt,“ bætir hún við.

Allegra Stratton.
Allegra Stratton. AFP

Mikil reiði hefur brotist út í kjölfar myndskeiðsins í gærkvöldi og hafa margir Bretar bent á hversu ömurleg jólin þeirra voru í fyrra. 

„Pabbi minn hitti yngsta barnabarnið sitt bara einu sinni,“ segir Louisa Backway í samtali við ITV. Hún og hennar nánustu fóru eftir öllum reglum í fyrra og þykir henni alveg ótrúlegt að horfa upp á náið samstarfsfólk forsætisráðherrans gera grín að ólöglegri veislu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert