„Stærsti glæpur í þúsund ár“

Norskir lögreglumenn á eftirlitsferð á Karls Jóhannsgötu í miðborg Óslóar. …
Norskir lögreglumenn á eftirlitsferð á Karls Jóhannsgötu í miðborg Óslóar. Síðdegis í dag brást lögregla við tilkynningu frá bólusetningamiðstöð í gamla Munch-safninu í Tøyen þar sem hópur bólusetningaaðgerðasinna hugðist brjóta sér leið inn í miðstöðina og hafa bóluefni þaðan á brott með sér. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þeir tepptu innganginn með því að stilla sér upp þannig að enginn kæmist inn. Starfsfólkið upplifði þetta sem truflun á starfseminni,“ segir Kristoffer Bang, vettvangsstjóri í lögreglunni í Ósló í Noregi, eftir að hópur tíu bólusetningaandstæðinga réðst til atlögu við bólusetningamiðstöð í Tøyen þar í borginni síðdegis í dag, teppti inngang hennar og reyndi aukinheldur að ryðjast inn í húsnæðið.

„Þarna voru á ferð andstæðingar bólusetninga sem ætluðu sér að fjarlægja bóluefni úr miðstöðinni,“ segir Cathrine Silju lögregluvarðstjóri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Lögregla sendi nokkra bíla á staðinn þegar henni barst tilkynning um atburðinn og handtók hún tvo viðstaddra sem neituðu frá að hverfa, átta létu sér segjast og yfirgáfu vettvang, en bólusetningamiðstöðin í Tøyen er í húsnæði gamla Edvard Munch-listasafnsins.

Dagbladet greinir frá því að alls hafi um 30 bólusetningaandstæðingar verið á staðnum við mótmæli, en tíu þeirra haft sig mest í frammi og lögregla haft af þeim afskipti.

Mega hinir handteknu búast við sektum fyrir að hafa fyrirmæli laganna varða að engu, en að sögn lögreglu kom henni meðalaldur innrásarhópsins mest á óvart sem kominn var af léttasta skeiði, en aldursforsetinn í hópnum reyndist standa á sjötugu er hann var krafinn skilríkja og aðrir „vel fullorðnir“ eins og lögregla orðar það.

Vildi greina innihald bóluefnisins

„Við teljum bólusetningarnar vera stærsta glæp sem við höfum séð í þúsund ár,“ sagði einn hópverja við fréttamann NRK, sem náði að senda fréttateymi á vettvang meðan lögregla var enn að skakka leikinn, og játaði hann enn fremur það sem Silju varðstjóri hafði áður sagt, að ætlun hópsins hefði verið að ryðjast inn í miðstöðina og gera bóluefni þar upptækt með það fyrir augum að koma því á rannsóknastofu og greina raunverulegt innihald þess. Tekur NRK þó fram að þetta síðasta hafi eingöngu verið ásetningur eins hópverja.

Marie Saunes var á leið í bólusetningu í miðstöðinni í Tøyen þegar uppþotið varð, en komst ekki inn fyrst um sinn fyrir bólusetningaaðgerðasinnunum rosknu, þeir og aðvífandi lögreglumenn fylltu anddyri miðstöðvarinnar.

„Við komumst svo inn og vorum látin setjast á bás til að bíða. Það sem ég heyrði var að starfsfólkið hefði þurft að fela bóluefni sem varð til þess að okkar bólusetningu seinkaði,“ segir Saunes við NRK og fær illa dulið gremju sína í garð samborgaranna. „Mér blæðir það í augum að einhverjir sem kjósa eitthvað annað skuli ætla að neita okkur hinum um það val okkar að láta bólusetja okkur,“ lýkur hún máli sínu.

NRK

TV2

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert