Vesturlönd ýti ekki undir hræðslu

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu. AFP

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, hefur biðlað til Vesturlanda að skapa ekki óreiðu vegna ástandsins á landamærum Úkraínu við Rússland. 

Zelensky sagði á blaðamannafundi í dag að viðvaranir Vesturlanda vegna mögulegrar innrásar Rússa stofni hagkerfi Úkraínu í hættu. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist í gær búast við því að Rússar geri innrás í Úkraínu í næsta mánuði. Rússar hafa aftur á móti tekið fyrir slík áform og í dag sagði utanríkisráðherra landsins að stríð væri ekki í kortunum hjá rússneskum yfirvöldum. 

Um hundrað þúsund rússneskir hermenn eru nú staðsettir á landamærum Úkraínu og Rússlands. 

„Það eru merki frá virtum leiðtogum þjóða, þeir segja að á morgun verði stríð. Þetta skapar hræðslu – hversu mikið á það eftir að kosta ríkið okkar?“ spurði Zelensky á blaðamannafundi í dag. 

Zelensky gagnrýndi jafnframt ákvarðanir bandarískra, breskra og ástralska yfirvalda um að flytja frá Úkraínu fjölskyldur diplómata. 

„Stigmögnun ástandsins í landinu er stærsta ógnin við Úkraínu,“ sagði Zelensky. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert