„Í dag erum við í áfalli“

Mikill mannfjöldi er samankominn í miðborg Óslóar eftir skelfingaratburð næturinnar.
Mikill mannfjöldi er samankominn í miðborg Óslóar eftir skelfingaratburð næturinnar. AFP/Håkon Mosvold Larsen

„Í dag erum við í áfalli og sorg, en ég verð að segja að við gleðjumst innilega yfir öllum sem hugsa til okkar, öllum sem hafa sýnt okkur stuðning og öllum sem hafa haft samband til að hughreysta okkur, hvort tveggja hér heima sem af alþjóðavettvangi.“

Þetta segir Inger Kristin Haugsevje, stjórnarformaður Oslo Pride, í samtali við mbl.is eftir að gleðigöngu og allri lokahelgi Pride-hátíðarinnar var aflýst í kjölfar skotárásar í miðborg Óslóar í nótt sem kostaði tvö mannslíf auk þess sem tugir eru sárir og Óslóarbúar með böggum hildar, enda ekki lengra síðan en í október að maður gekk berserksgang í smábænum Kongsberg og myrti þar fimm manns.

Inger Kristin Haugsevje segir regnboga vera um alla Ósló í …
Inger Kristin Haugsevje segir regnboga vera um alla Ósló í dag. Ljósmynd/Marie Mayer/Oslo Pride

„Í dag eru regnbogar um alla Ósló,“ segir Haugsevje, sem miðað við bakgrunnshljóð símtalsins er stödd í ringulreið símhringinga og erindasvörunar ásamt Rohan Sandemo Fernando, upplýsingafulltrúa Oslo Pride, og fleirum úr stjórninni. 

„Þetta er auðvitað bara skelfingaratburður, maður getur ekkert annað sagt, og kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti, maður reiknar einhvern veginn aldrei með öllu þessu hatri og illsku sem svo sprettur upp með hörmulegum afleiðingum. Hér er ráðist á gildi okkar og það sem Pride-hreyfingin stendur fyrir og það er afskaplega átakanlegt og sorglegt, sama hvaðan horft er,“ segir stjórnarformaðurinn enn fremur.

Ósló er í sárum eftir skotárás í nótt sem skilgreind …
Ósló er í sárum eftir skotárás í nótt sem skilgreind hefur verið sem hryðjuverk. Stjórnarformaður Oslo Pride þakkar stuðning úr öllum áttum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tími Haugsevje er af skornum skammti, hennar er vænst í næsta símtal, næstu spurningar. Býst hún við að atburðurinn í nótt komi til með að hafa áhrif á Pride-hátíðir framtíðarinnar í Ósló, þar sem hátíðin felur almennt í sér tíu daga þéttskipaða dagskrá?

„Ég get bara ekki svarað því núna, það er ómögulegt að segja, veistu ég verð að kveðja þig núna,“ segir Inger Kristin Haugsevje stjórnarformaður undir lok samtalsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert