Segist vilja leiða Breta í áratug til viðbótar

Forsætisráðherrann svaraði spurningum blaðamanna í dag.
Forsætisráðherrann svaraði spurningum blaðamanna í dag. AFP

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands stefnir á að halda í valdataumana í landinu í að minnsta kosti áratug til viðbótar, þrátt fyrir að fjöldi þingmanna Íhaldsflokksins hafi þegar kallað eftir afsögn hans. Gangi áform Johnsons eftir yrði hann þaulsætnasti leiðtogi landsins í tvö hundruð ár.

Fyrr í þessum mánuði náði forsætisráðherrann að standast atkvæðagreiðslu þingflokksins um vantraust á hendur sér, en 41% þingflokksins kaus gegn áframhaldandi formennsku hans. Þá sætir hann rannsókn vegna gruns um að hann hafi vísvitandi afvegaleitt þingið.

Tveir frambjóðendur flokksins töpuðu í gær kosningum þar sem fyllt var í skörð tveggja þingmanna Íhaldsflokksins sem sagt höfðu af sér þingmennsku, annar eftir að hafa verið fundinn sekur um kynferðislegt ofbeldi, og hinn eftir að hafa verið gripinn í þingsal við klámáhorf.

Niðurstöður þessara sérstöku kosninga þykja gefa til kynna að Íhaldsflokkurinn njóti ekki sömu vinsælda og í desember 2019, þegar Johnson náði að leiða flokkinn til mikils kosningasigurs og tryggja hreinan þingmeirihluta.

Johnson í þingsal fyrr í vikunni.
Johnson í þingsal fyrr í vikunni. AFP

Tók við embætti 2019

„Sem stendur er ég að hugsa um þriðja kjörtímabilið, og þú veist, hvað gæti gerst þá. En ég mun skoða það þegar þar að kemur,“ sagði Johnson við blaðamenn í Rúanda í dag, á lokadegi fundar samveldisríkjanna.

Johnson tók við kefli forsætisráðherra af Theresu May, eftir að hún sagði af sér embættinu árið 2019. Nokkrum mánuðum síðar voru haldnar kosningar og því þótti ef til vill ekki víst hvað Johnson ætti við með þriðja kjörtímabilinu.

Spurður hvað hann ætti við, sagði hann: „Varðandi þriðja kjörtímabilið ... þetta er um miðjan næsta áratug (e. this is the mid-2030s).“

Johnson heimsótti grunnskólabörn í Rúanda á fimmtudag.
Johnson heimsótti grunnskólabörn í Rúanda á fimmtudag. AFP

Næstu kosningar fyrir árið 2025

Lögum samkvæmt þarf Johnson að blása til næstu þingkosninga fyrir árið 2025, og þyrfti svo þriðja kosningasigurinn áður en árið 2030 gengur í garð, til að halda enn lengur í valdataumana, samkvæmt umfjöllun Reuters.

Fari svo að valdatíð hans teygist vel inn í árið 2031 mun hann slá met Margaret Thatcher, sem þaulsetnasti forsætisráðherrann frá því Robert Banks Jenkinson gegndi embættinu, frá 1812 til 1827.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert