Kanada bannar innflutning á skammbyssum

Byssulöggjöfin í Kanada er ströng.
Byssulöggjöfin í Kanada er ströng. AFP/Brian Myrick

Stjórnvöld í Kanada tilkynntu í dag að innflutningur á skammbyssum verði bannaður frá og með 19. ágúst. Er þetta hluti af aðgerðum sem gætu orðið til þess að kaup og sala þeirra stöðvist algjörlega.

Um er að ræða tímabundið bann þangað til settar verða nýjar og strangari reglur. BBC greinir frá.

Justin Trudeau forsætisráðherra lagði til algert bann í maí, nokkrum dögum eftir skotárásina í grunnskólanum í Texas, þar sem 19 nemendur og tveir kennarar létust. Með lagabreytingunni yrði ómögulegt að kaupa, selja og flytja inn byssur.

Hefðu aðeins einn tilgang

Marco Mendicino, ráðherra almannaöryggis, sagði að skammbyssur hefðu aðeins einn tilgang þegar hann greindi frá ákvörðuninni í dag. Tilgangurinn væri að drepa fólk.

Ólíkt Bandaríkjunum er eignarhald á byssum ekki verndað í stjórnarskrá Kanada, en skotvopn eru þó vinsæl þar í landi.

Byssulöggjöfin í Kanada er töluvert strangari en í Bandaríkjunum, til dæmis þurfa allar byssur að vera geymdar læstar og óhlaðnar og allir sem vilja kaupa skotvopn verða að gangast undir ítarlega bakgrunnsskoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert