Varar við háskanotkun húsgagna

Tveir ungir piltar aka um götu í Ósló í sófa …
Tveir ungir piltar aka um götu í Ósló í sófa sem þeir hafa komið fyrir á rafhlaupahjólum sínum en hægindastólar og stólar sem stolið er tugum saman af kaffihúsum njóta einnig vinsælda. Skjáskot/Sjónvarpsfréttir NRK

„Með aukinni notkun [samfélagsmiðilsins] TikTok meðal ungmenna síðustu ár verðum við vör við fjölgun óhugnanlegra myndskeiða af því hvernig þau nota rafmagnshlaupahjól og stofna sjálfum sér og öðrum í stórhættu.“

Þetta segir Liv Marie Bendheim, verkefna- og herferðastjóri norsku umferðaröryggissamtakanna Ung i trafikken, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK um tískufyrirbæri sem sænskir fjölmiðlar fjölluðu um í fyrrasumar en breiðist nú út um Noreg.

Er þar á ferð sú háttsemi að koma stólum, jafnvel heilu sófunum, fyrir á rafmagnshlaupahjólum og aka svo um sitjandi í mublum þessum. Í Svíþjóð hófst þróun þessi með stólum af kaffihúsum sem stolið var í gríð og erg til að nýta í þessum tilgangi og kvartaði kaffihússeigandi nokkur yfir því við Aftonbladet þar í landi að 20 stólum hefði verið stolið af kaffihúsi hans á stuttum tíma til notkunar á rafhlaupahjólum.

„Þetta þurfum við að prófa um helgina“

Óttast Bendheim að húsgagnatískubylgjan, sem jafnvel felur í sér að allt að þrír rafhjólaökumenn séu saman við akstur, valdi þrýstingi á fleiri ungmenni sem freistist til að reyna þennan nýja ferðamáta. „Félagslegur þrýstingur nær mun frekar til ungmenna en fullorðins fólks [...] við sjáum núna í athugasemdum við færslur á samfélagsmiðlum að þar skrifa margir að þetta sé svalt og þeir verði að reyna það, „tagga“ jafnvel vini og kunningja og segja sem svo að þetta þurfum við að prófa um helgina,“ segir hún.

Þessi ungi maður hefur komið sér fyrir í gömlum hægindastól …
Þessi ungi maður hefur komið sér fyrir í gömlum hægindastól á hjóli sínu og fer um í makindum. Umferðaröryggissamtök vara við þessari framsæknu notkun húsgagna. Skjáskot/Sjónvarpsfréttir NRK

Telur verkefnastjórinn að foreldrar þurfi einnig að taka meiri ábyrgð á því sem börn þeirra aðhafist í umferð á götum úti, hvetja til hjálmanotkunar og almennrar reglusemi í umferðinni. Ungmenni yngri en 15 ára séu ekki sakhæf og þar með geti hugsanlegar sektir lent á foreldrum þeirra.

Liv Marie Bendheim, verkefna- og herferðastjóri norsku umferðaröryggissamtakanna Ung i …
Liv Marie Bendheim, verkefna- og herferðastjóri norsku umferðaröryggissamtakanna Ung i trafikken, kveður þróunina varhugaverða og bendir á ábyrgð foreldra. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Það mikilvægasta er að fólk velti því fyrir sér hvort það sé að aðhafast eitthvað sem er hættulegt,“ segir Bendheim og leggur að lokum áherslu á að Ung i  trafikken leggist ekki gegn rafhlaupahjólum á nokkurn hátt, óski þess eingöngu að notkun þeirra sé innan marka heilbrigðrar skynsemi.

NRK

NRKII (herða regluverkið um rafhlaupahjól)

Dagbladet (umfjöllun í fyrrasumar – læst áskriftargrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert