Tvær konur fuku á haf út í Kanada

Frá Nova Scotia í dag.
Frá Nova Scotia í dag. AFP/ Drew Angerer

Stormurinn Fíóna er skollinn á Kanada af fullum þunga. Þúsundir heimila eru án rafmagns og þegar hafa hús fokið út á rúmsjó í öflugum vindum og rigningu, „ólíkt nokkru sem við höfum áður séð,“ segir lögreglan. 

Stormurinn hefur gripið með sér tvær konur, sem fuku á haf út í Nýfundnalandi, samkvæmt upplýsingum frá riddaralögreglunni í Kanada. Annarri var bjargað, en hinnar er enn saknað. 

Haft er eftir Brian Button, bæjarstjóra í Channel-Port aux Basques, að stormurinn hafi valdið algjörri eyðileggingu og sé stærri og meiri en þau hafi nokkurn tímann ímyndað sér. 

Þá er haft eftir Rene Roy, blaðamanna í sama bæ, að vindarnir séu þeir mestu sem nokkur í samfélaginu hafi  upplifað.

Frá miðjum degi í dag eru um 500 þúsund heimili án rafmagns á meðan stormurinn ríður yfir, rífur upp rafmagnslagnir, tré sem síðan falla á hús, og þök rifna af húsum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert