Bugaður lottóvinningshafi harmar að hafa unnið

Anoop biður fólk um að láta sig í friði.
Anoop biður fólk um að láta sig í friði. Ljósmynd/Skjáskot BBC

Indverskur lottóvinninghafi er svo yfirbugaður af stanslausum beiðnum um fjárhagsaðstoð frá ókunnugum að hann harmar að hafa unnið stóra vinninginn.

Anoop, bílstjóri frá suðurhluta Kerala, vann rúmar 430 milljónir króna í ríkislottóinu fyrr í september, en aðeins viku síðar birti hann myndband á netinu þar sem hann bað fólk að láta sig og fjölskylduna vera, að segir í frétt BBC.

„Ég vildi að ég hefði ekki unnið,“ segir hann í myndbandinu. „Þriðju verðlaun hefðu verið betri.“ Anoop segir að fjölskyldan hafi íhugað að flytja til að losna við allt áreitið, en fjöldi fólks safnast saman fyrir utan heimili hans á hverjum degi.

Kemst ekki með barnið til læknis

Hann komst strax fréttirnar þegar í ljós kom að vinningurinn hefði komið í hans hlut, en um er að ræða hæsta vinning sem komið hefur á einn miða í ríkislottóinu.

„Ég var svo hamingjusamur yfir því að hafa unnið. Það var fjöldi fólks og upptökuvélar fyrir utan húsið og við vorum glöð,“ segir Anoop einnig í myndbandinu.

Ástandið hafi þó fljótt farið úr böndunum. „Ég get ekki yfirgefið heimili mitt, ég get ekki farið neitt. Barnið mitt er veikt og ég get ekki farið með það til læknis.“

Hefur ekki fengið peninginn

Anoop hefur þó enga peninga fengið ennþá. „Ég reyni að segja fólki að ég hafi ekki fengið peninginn. Enginn virðist hlusta, það skiptir engu hvað ég segi það oft.“

Fjölskyldan hefst nú við hjá ættingjum til að losna undan athyglinni.

Til stendur að Anoop fái fjármálaráðgjöf frá ríkinu áður en hann fær peningana í hendurnar til að reyna að tryggja að þeim verði vel varið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert