Dýrasta heimili London í eigu Evergrande auðjöfurs

2-8a Rutland Gate í London var selt árið 2020 fyrir …
2-8a Rutland Gate í London var selt árið 2020 fyrir 210 milljónir punda. Ljósmynd/Gareth E. Kegg

Dýrasta heimilið í London er í eigu forsvarsmanns kínverska fasteignarisans Evergrande, en um ár er síðan félagið vakti mikla athygli alþjóðapressunnar þegar greint var frá gríðarlegum skulda- og greiðsluvanda félagsins. Er um að ræða annað stærsta fasteignafélag Kína og voru skuldir þess metnar á um 300 milljarða dala þegar það sótti um greiðslustöðvun í desember í fyrra.

Í umfjöllun Financial Times í dag er greint frá því að Hui Ka Yan, stofnandi og stjórnarformaður Evergrande, sé í raun eigandi 2-8a Rutland Gate, sem var selt í byrjun árs 2020, rétt áður en áhrif heimsfaraldursins lögðust yfir Bretland. Segir í frétt blaðsins að söluverð eignarinnar hafi verið 210 milljónir punda, eða sem jafngildir á gengi dagsins í dag tæplega 35 milljörðum íslenskra króna.

Krónprins Sádi-Arabíu og forsætisráðherra Líbanon 

Það var dánarbú fyrrverandi krónprins Sádi-Arabíu ,Sultan bin Abdulaziz, sem var seljandi, en krónprinsinn lést árið 2011 vegna veikinda. Hafði hann fengið eignina gefins frá dánarbúi Rafic Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra og viðskiptaauðjöfri í Líbanon, en hann lést í sprengjuárás í Beirút árið 2005.

Sá sem kom fram fyrir hönd kaupanda Rutland Gate við kaupin í janúar 2020 var Cheung Chung-kiu, annar kínverskur fasteignaeigandi, en félag hans CC Land, á meðal annars skýjakljúfinn 122 Leadenhall Street í London, sem einnig er þekktur sem ostarifjárnið (e. Cheesegrater).

Náin tengsl Cheung og Hui

Financial Times hefur það eftir fimm heimildarmönnum að þrátt fyrir aðkomu Cheung sé það í raun Hui sem sé eigandi Rutland Gate á bak við tjöldin, en þeir eru hluti af sömu valdaklíku auðjöfra frá Hong Kong sem meðal annars spila saman. Þá hafa þeir einnig átt í öðrum viðskiptum saman og CC Land hefur selt eignir fyrir Evergrande í Evrópu.

Kaupin á Rutland Gate fóru fram í gegnum félag sem skráð er á Bresku jómfrúareyjunum og heitir Vision Perfect Global Ltd. Stærsti eigandi þess félags er Ding Yumei, sem er eiginkona Hui. Þau eru þekkt fyrir mikilfenglegan lífstíl sinn og hefur Hui meðal annars keypt upp fjölda fasteigna fyrir sig víða um heim.

Eignin til sölu en ekki í formlegu söluferli

Eftir erfiðleika Evergrande í fyrra og allt fram á þennan dag hefur Hui reynt að selja persónulegar eignir eins og einkaþotur. Þá segir í grein Financial Times að Rutland Gate sé einnig í raun á sölu, þrátt fyrir að ekkert formlegt söluferli sé í gangi. Hefur blaðið eftir heimildarmönnum sínum að erfitt sé að verðmeta húsið. Það sé í raun eins og listaverk eða einstakir skartgripir. Ef einhver vill það nógu mikið er viðkomandi tilbúinn að borga nóg fyrir það. Sömu heimildarmenn segja hins vegar að líklega muni mögulegir kaupendur vilja fá umtalsverðan afslátta af söluverðinu frá 2020.

Eignin er sögð vera 5.782 fermetrar að stærð og með 45 herbergjum. Árið 2012, þegar eignin var á sölu, var sagt að samtals væru 24 baðherbergi í húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert