Kveður tollskoðun Rússatogara ábótavant

Morten Albertsen hafnarstjóri kveðst undrandi yfir ábendingunni, tollgæsla hafi mikla …
Morten Albertsen hafnarstjóri kveðst undrandi yfir ábendingunni, tollgæsla hafi mikla nærveru í hans umdæmi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Brögð hafa verið að því að rússneskir togarar komi og fari um höfnina í Båtsfjord í Troms og Finnmark í Noregi án þess að tollgæsla fari í eftirlitsferð um borð en slíkt eftirlit á að eiga sér stað samkvæmt lögum um viðskiptabann gagnvart Rússlandi.

Rússneskir togarar hafa aðeins leyfi til að koma til þriggja hafna nyrst í Noregi, Båtsfjord, Kirkenes og Tromsø, og hefur tollgæslu verið uppálagt að fara um borð í togarana við komu og brottför og kanna að þar sé ekki varningur sem verið sé að lauma gegnum Noreg til Rússlands eða frá því og þar með brjóta gegn viðskiptabanninu.

Nafnlaus uppljóstrari sendi norska ríkisútvarpinu NRK og lögreglunni í Troms og Finnmark bréf þar sem hann benti á þetta. Segir þar að 22. október hafi nafngreindur togari komið til Båtsfjordán afskipta tollgæslu auk þess sem fleiri hafi komið og farið án nokkurrar skoðunar.

Fyrst og fremst útflutningseftirlit

„Nú er það ekki þannig að við förum og könnum hvort skipin hafi verið tollskoðuð, en tollurinn hefur mikla nærveru í Båtsfjord núna,“ segir Morten Albertsen hafnarstjóri við NRK, „þetta bréf kemur mér því mjög á óvart.“

Í Båtsfjord er hins vegar ekki tollstöð, sveitarfélagið deilir sýslumannsskrifstofu með nágrannanum Berlevåg. Øystein Børmer ríkistollstjóri skrifar í tölvupósti til NRK að 90 prósent rússneskra fiskiskipa hljóti fullnægjandi tollafgreiðslu.

Tilgangurinn með eftirlitinu sé fyrst og fremst að hafa eftirlit með útflutningi, það er hvort rússnesk skip fái varning um borð í trássi við viðskiptabannið. Þess vegna fari tollverðir um borð eins skömmu fyrir brottför og komið verður við.

Vara ítrekað við njósnum

Sølve Solheim, deildarstjóri landamæradeildar lögreglunnar í Finnmark, segir lögreglu og tollgæslu hafa átt í góðu samstarfi við Rússaverkefnið. „Við viljum vera sýnilegir við eftirlit með farartækjum. Við viljum gjarnan vera meira til staðar í Båtsfjord,“ segir Solheim.

Norska öryggislögreglan PST hefur enn fremur ítrekað varað við njósnum og bendir á að hættan á þeim af hálfu Rússa hafi stóraukist eftir innrásina í Úkraínu.

NRK

NRKII (aðgangur rússneskra skipa takmarkaður)

NRKIII (eftirlitið stórhert)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert