Umsátursástand við hótel í Sómalíu

Öryggissveitir í Mogadishu í síðasta mánuði.
Öryggissveitir í Mogadishu í síðasta mánuði. AFP/Hassan Ali Elmi

Öryggissveitir Sómalíu áttu í skotbardögum við uppreisnarmenn á hóteli í höfuðborginni Mogadishu í morgun eftir að hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab ruddust þangað inn. Hótelið er staðsett nálægt forsetahöll landsins og eru þingmenn og aðrir embættismenn tíðir gestir þar.

Lögreglan greindi frá því seint í gærkvöldi að hersveitir á vegum ríkisstjórnarinnar væru að reyna að „útrýma“ hópi vopnaðra manna á hótelinu Villa Rose eftir að þeir höfðu ráðist þangað inn með byssur og sprengjur að vopni.

Talsmaður lögreglunnar, Sadis Dudishe, sagði að mörgum almennum borgurum og embættismönnum hafi verið bjargað.

BBC greindi frá því að umhverfisráðherra Sómalíu, Adam Aw Hirsi, hafi komist lífs af úr árásinni. Óstaðfestar fregnir herma að Mohamed Ahmed, innanríkisráðherra landsins, hafi særst.

Samtökin Al-Shabaab, sem tengjast Al-Kaída, hafa reynt að steypa stjórnvöldum í Sómalíu af stóli síðastliðin 15 ár.

Uppfært kl. 7.28:

Að minnsta kosti fjórir hafa verið drepnir í umsátrinu af liðsmönnum Al-Shabaab.

„Hryðjuverkamennirnir eru fastir inn í herbergi í byggingunni og öryggissveitirnar munu binda enda á umsátrið fljótlega...við höfum staðfest fjögur dauðsföll,“ sagði embættismaðurinn Mohamed Dahir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert