Bað um aðstoð við að losna við lík

Grunaði, Joshua Cooper, er 16 ára gamall og ákærður fyrir …
Grunaði, Joshua Cooper, er 16 ára gamall og ákærður fyrir að skjóta 13 ára stúlku til bana í hjólhýsi. Ljósmynd/Lögreglan í Bensalem

Sextán ára gamall drengur í Bensalem í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hefur verið ákærður fyrir manndráp, handhöfn skotvopna og spillingu sönnunargagna eftir að 13 ára gömul stúlka fannst skotin til bana í hjólhýsi sem ákærði er til heimilis í.

Upphaf málsins var að kona hringdi felmtri slegin í lögregluna á föstudaginn og tilkynnti að vinur dóttur hennar hefði haft samband við dótturina á samfélagsmiðlinum Instagram og beðið hana um aðstoð við að losna við lík. Hefði hann þar sýnt dótturinni mynd af blóðidrifnum fótleggjum til jarteikna.

Bar við voðaskoti

Lögregla fann fljótlega út að drengurinn er skráður til heimilis í hjólhýsi í hjólhýsagarði í Bensalem og sendi lið á staðinn. Er lögreglu bar að garði sá hún grunaða hlaupa út úr hjólhýsinu en þar inni fannst stúlkan látin á baðherbergisgólfinu og þótti augljóst að banamein hennar var byssuskot.

„Einnig sáust greinileg ummerki um tilraunir til að hreinsa vettvang glæpsins,“ segir lögregla. Voru kennsl borin á hina látnu með skartgripum sem hún bar, en dagblaðið Philadelphia Inquirer greinir frá því að grunaði hafi komist í skotvopnaskáp föður síns og náð þar í byssu ásamt skotfærum áður en stúlkan kom í heimsókn til að horfa á Netflix-með honum.

Við handtöku fullyrti grunaði að um voðaskot hefði verið að ræða og faðir hans kæmi til með að drepa hann. Hann situr nú bak við lás og slá í ungmennafangelsi og hefur verið neitað um lausn gegn tryggingafé.

The Philadelphia Inquirer

Fox 29

WXHC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert