Rússum gremst páfinn

Páfi kveður eftir ávarp við Friðarskólann í gær. Rússum gremjast …
Páfi kveður eftir ávarp við Friðarskólann í gær. Rússum gremjast mjög ummæli hans um þarlenda minnihlutahópa. AFP/Tiziana Fabi

Rússneska utanríkisráðuneytið, með talskonu sína Mariu Sakaróvu í fararbroddi, fordæmir þau ummæli Frans páfa að tilteknir þjóðernisminnihlutahópar í röðum rússneska hersins hafi sýnt af sér ámælisverðari hegðun en aðrir á vígvöllum Úkraínu.

Nefnir páfi þar sérstaklega Téténa og Búríata í viðtali við jesúítatímaritið America auk þess sem hann kallar hungursneyðina miklu í Úkraínu árin 1932 til 1933 þjóðarmorð. Segir rússneska ráðuneytið ummæli páfa öfugsnúin, þjóðernishóparnir séu „ein fjölskylda“.

Í viðtalinu var páfi inntur eftir því hvers vegna hann hikaði við að fordæma Rússa opinberlega fyrir stríðið og svaraði því þá til að honum bærust „miklar upplýsingar um miskunnarleysi hermannanna“. „Almennt séð eru þeir grimmustu þeir sem eru af Rússlandi en ekki af rússnesku hefðinni, til dæmis Téténar, Búríatar og svo framvegis,“ sagði Frans í viðtalinu.

Reynir að fordæma almennt

Bætti hann því þó við til áréttingar að árásaraðilinn væri rússneska ríkið. Téténar koma frá Téténíu í Suðvestur-Rússlandi og eru flestir múslimar. Búríatar eru hins vegar mongólskir að ætt og kenndir Búríatíu í Austur-Síberíu. Búddatrú er útbreiddust meðal þeirra en þeir aðhyllast einnig shamanisma eða seið.

Kvaðst páfi hafa rætt nokkrum sinnum símleiðis við Volódómír Selenskí Úkraínuforseta auk þess að eiga óbein samskipti við Vladimír Pútín Rússlandsforseta gegnum fulltrúa biskupsstólsins.

„Stundum reyni ég að fordæma almennt án þess að tilgreina nákvæmlega og er þá augljóst hvern ég fordæmi. Ég þarf ekki alltaf að nota fornafn og eftirnafn,“ svaraði páfinn gagnrýni fyrir að fordæma Pútín ekki umbúðalaust. „Allir vita mína afstöðu, með eða án Pútíns, án þess að nefna nafn hans,“ sagði hann síðar í viðtalinu.

Ekki lengur Rússafælni

„Þetta er ekki lengur Rússafælni [e. Russophobia], þetta er öfugsnúningur á stigi sem ég get ekki einu sinni nefnt,“ sagði Sakaróva um málflutning páfa og var það rússneska RT-ríkisfréttastofan sem hafði eftir henni. „Við erum ein fjölskylda að meðtöldum Búríötum, Téténum og öðrum fulltrúum okkar fjölþjóðlega og fjölbreytilega lands,“ skrifaði hún svo síðar á samfélagsmiðilinn Telegram.

Frans páfi kvaðst einnig vilja minnast hungursneyðarinnar í Úkraínu þegar hundrað ár væru liðin frá henni eftir áratug. Kallaði hann hungursneyðina, sem Stalín handstýrði og varð um fjórum milljónum manns að aldurtila, þjóðarmorð og „sögulegan formála“ núverandi átaka.

BBC

Crux Now

Radio Free Europe

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert