Sjaldgæft afbrigði salmonellu í Noregi

Sjaldgæft afbrigði salmonellu hefur greinst í Noregi og hafa 13 …
Sjaldgæft afbrigði salmonellu hefur greinst í Noregi og hafa 13 manns þurft að leggjast inn til meðhöndlunar. Ljósmynd/Statens Serum Institut

„Þetta er nokkuð mikið miðað við það sem vanalegt er,“ segir Preben Aavistland, fagstjóri hjá Lýðheilsustofnun Noregs, um salmonellufaraldur sem þar hefur tekið sig upp en rúmlega 30 tilfelli hafa greinst í átta fylkjum upp á síðkastið og hafa þar af 13 þurft að leggjast inn á sjúkrahús.

Uppruni smitsins er óljós en oftast smitast salmonella gegnum matvæli. Afbrigði bakteríunnar er sjaldgæft, salmonella agona heitir það, greinist sjaldan í Noregi og þá einkum í fólki sem verið hefur erlendis, að sögn Heidi Lange, yfirráðgjafa stofnunarinnar.

Almenn einkenni salmonellusmits eru steinsmuga, magaverkir, ógleði og stundum hiti og eru þeir sem greinst hafa á aldrinum eins til 84 ára, meðalaldur 31 ár. Allir sem lagðir hafa verið inn eru eldri en 25 ára.

Líklega einhver algeng vara

Sérfræðingar Lýðheilsustofnunar og Matvælaeftirlitsins vinna nú að því í samvinnu við yfirlækna sveitarfélaga vítt og breitt um Noreg að finna uppruna smitsins sem talinn er einhver matvara sem í dreifingu er um allt land úr því sjúklingarnir búa svo víða.

„Tilfellin voru orðin það mörg þegar þau uppgötvuðust að þetta er líklega einhver algeng vara,“ segir Aavitsland við norska ríkisútvarpið NRK en Lange ráðgjafi segir að þrátt fyrir að óvenjumargir hafi þurft að leggjast inn bendi fátt til þess að téð afbrigði bakteríunnar, agona, valdi alvarlegri sjúkdómseinkennum en önnur afbrigði hennar.

„Líklega eru mun fleiri smitaðir en við vitum til og hafa þá ekki fengið það mikil einkenni að þeir þarfnist læknishjálpar og þar með hefur sýnataka ekki farið fram,“ heldur Aavitsland áfram og segist ekki reikna með að útbreiðslan verði mikið meiri en nú er.

Fyrstu þrjú tilfellin greindust á Haukeland

„Við reiknum ekki með fjölda smita. Nú er verið að kanna þetta og ég býst ekki við að líði á löngu þar til við vitum um hvaða matvöru er að ræða. Þá stöðvum við dreifingu hennar ef hún er þá ekki öll þegar seld,“ segir hann.

Fyrstu þrjú tilfellin greindust á örverufræðideild Haukeland-sjúkrahússins í Bergen 18. nóvember en síðan hafa sjö tilfelli til viðbótar greinst þar í sýnum frá öllum hlutum Vestur-Noregs.

NRK

TV2

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert