Um 1.300 stríðsfangar látnir lausir

Úkraínskir stríðsfangar sem voru látnir lausir í október.
Úkraínskir stríðsfangar sem voru látnir lausir í október. AFP/Security service of Ukraine

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, greindi frá því í dag að fleiri en 1.300 úkraínskir stríðsfangar hefðu verið látnir lausir úr haldi Rússa frá því að stríðið hófst í febrúar. 

Selenskí greindi frá fjöldanum á Instagram-síðu sinni er hann deildi þar mynd af Úkraínumönnum sem hafa nýlega verið látnir lausir. 

„Við ætlum ekki að hætta fyrr en allt fólkið okkar er komið aftur heim,“ sagði í færslu forsetans. 

Andrí Jermak, aðstoðarmaður Selenskís, greindi frá því á Telegram að 50 fangar hefðu verið látnir lausir nýlega. Meðal þeirra voru menn sem börðust í Asovstal-verk­smiðjunni í Maríu­pol, Dónetsk, Lúhansk og Saporisjía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert