Fengu dýraaugu send með pósti

Sprengja, sem var send með pósti, sprakk í úrkaínska sendiráðinu …
Sprengja, sem var send með pósti, sprakk í úrkaínska sendiráðinu á Spáni á miðvikudag. AFP/Oscar Del Pozo

Nokkur sendiráð og ræðismannaskrifstofur Úkraínu víðs vegar um Evrópu hafa fengið augu úr dýrum send í pósti að sögn úkraínska utanríkisráðuneytisins. 

Oleg Nikolenko, talsmaður ráðuneytisins, greinir frá því að „alblóðugu“ pakkarnir hafi fundist í Ungverjalandi, á Ítalíu, Hollandi, Póllandi, Króatíu og Austurríki. 

BBC greinir frá því að óljóst er hver sendi pakkanna. 

Nikolenko sagði að pakkarnir sex hafi verið gegndrepa af vökva sem var í einkennandi lit og hafði samsvarandi lykt. 

„Vel skipulögð herðferð hryðjuverka“

Dmítró Ku­leba, ut­an­rík­is­ráðherra Úkraínu, sagði að um „vel skipulagða herðferð hryðjuverka“ væri að ræða. 

Nikolenko greindi frá nokkrum atvikum á Facebook. Meðal annars hafi skemmdarverk verið unnin á inngang að bústaði sendiherra Úkraínu í Páfagarði og þá hafi sendiráðið í Kasakstan fengið sprengjuhótun.

Hann bætti við að úkraínsk yfirvöld væru að rannsaka atvikin ásamt lögreglu í ríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert