Kveða lögreglu sverta minningu hins látna

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Aðstandendur mannsins sem skotinn var til bana í Grønland-hverfinu í Ósló snemma á sunnudagsmorgun eru ákaflega ósáttir við ummæli lögreglunnar í fjölmiðlum í kjölfar atburðarins.

Hafi því þar verið haldið fram fullum fetum að um hafi verið að ræða uppgjör í undirheimunum og hinn látni hafi tengst þeim sterkum böndum. Maður á fertugsaldri situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um verknaðinn.

Réttargæslulögmaður fjölskyldunnar, Kaja De Vibe Malling, kveður fjölskylduna í áfalli yfir þessum ummælum lögreglunnar sem algjörlega séu úr lausu lofti gripin.

„Vonbrigði fjölskyldunnar eru mikil jafnt sem áfallið yfir þeirri mynd sem lögreglan hefur dregið upp af hinum látna í fjölmiðlum. Einkum og sér í lagi má þar nefna blaðamannafund lögreglunnar á sunnudaginn þar sem því var ranglega haldið fram að hann hefði verið margdæmdur fyrir ýmiss konar brot,“ segir Malling og bætir því við að maðurinn hafi í lifanda lífi hlotið þrjá dóma fyrir minni háttar brot.

Vilja draga lærdóm af ónákvæmum ummælum

Enginn þeirra dóma snýr að nokkru sem tengja mætti við afbrotastarfsemi glæpagengja, því slær norska ríkisútvarpið NRK föstu eftir að hafa kynnt sér dómana sem maðurinn hlaut. Einn þeirra er fyrir slagsmál í veislu, annar fyrir að raska næturró með skarkala og sá þriðji féll í kjölfar þess er maðurinn neitaði að gangast undir lögreglustjórasátt og var því dæmdur til sektar.

Kari Kirkhorn, lögmaður lögreglunnar í Ósló, segir NRK að lögreglan hafi nú fundað með fjölskyldunni. „Þar höfum við útskýrt að við viljum draga lærdóm af þeim óheppilegu og ónákvæmu ummælum sem þarna voru höfð uppi,“ segir Kirkhorn og bætir því við að lögregla hafi ekki ætlað sér annað en að tryggja öryggi almennings.

NRK

Aftenposten

Avisa Oslo

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert