Fimm ára skotinn af átta ára vini sínum

Margir deila um réttinn til að bera byssu í Bandaríkjunum …
Margir deila um réttinn til að bera byssu í Bandaríkjunum þessa dagana en umræðuefnið hefur verið mikið á milli tannana á fólki vegna fjölda skotárása. Hér má sjá mann virða fyrir sér riffill á ráðstefnu byssusamtaka í Bandaríkjunum (NRA). Mynd úr safni. AFP

Fimm ára drengur var skotinn á heimili sínu í Houston í Texas-ríki í Bandaríkjunum í gær og er í lífshættulegu ástandi. Skotmaðurinn reyndist vera átta ára vinur drengsins. 

Fréttastofa ABC greinir frá þessu.

Áður en að lögregla kom á vettvang hafði faðir drengis ekið með hann á sjúkrahús þar sem hann var færður inn á gjörgæsludeild.

Þrír voru færðir í hald lögreglu í kjölfar slyssins en talið er að minnst einn fullorðinn hafi verið viðstaddur þegar skotinu var hleypt af. Enn sem komið er er ekki vitað hvernig drengurinn fékk byssu í hendurnar. 

Eldri drengurinn hlaut skurð á höfuðið eftir að hafa hleypt af skotinu en ekki er ljóst hvernig það kom til. Lögregla á svæðinu rannsakar nú málið.

Aðeins mánuður er liðinn frá því að átta ára drengur var skotinn til bana af tíu ára bróður sínum í Houston. Sá eldri hafði þá fundið haglabyssu á heimilinu og skaut óvart í átt að bróður sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert