Musk breytir Twitter í „hótel“ fyrir starfsfólk

Musk eignaðist Twitter í október og er sagður hafa unnið …
Musk eignaðist Twitter í október og er sagður hafa unnið og sofið þar nánast alla daga síðan. AFP

Breska ríkisútvarpið hefur fengið sendar ljósmyndir af vinnurými í höfuðstöðvum Twitter í San Francisco sem búið er að breyta í svefnherbergi. Borgaryfirvöld kanna nú hvort þarna sé mögulegt brot á húsnæðislöggjöf. 

Í umfjöllun BBC má sjá ljósmynd af hjónarúmi inni í herbergi þar sem einnig er að finna fataskáp og inniskó. 

Fyrrverandi starfsmaður Twitter segir að Elon Musk, eigandi Twitter, hafi dvalið í höfuðstöðvunum frá því hann keypti fyrirtækið í október. 

Musk sendi tölvupóst á allt starfsfólk Twitter í síðasta mánuði þar sem hann sagði að allir þyrftu að leggja sérstaklega hart að sér ætti fyrirtækinu að vegna vel. 

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun San Francisco hefur staðfest að hún sé að rannsaka möguleg brot í kjölfar kvartana. 

Musk segir að borgin sé að ráðast á fyrirtæki sem útvegi rúm fyrir þreytt starfsfólk.

Í Twitter-færslu, sem búið er að eyða, sagði Musk að hann myndi vinna og sofa í vinnunni þangað til fyrirtækið kæmist í lag. 

Höfuðstöðvar Twitter eru í San Francisco í Bandaríkjunum.
Höfuðstöðvar Twitter eru í San Francisco í Bandaríkjunum. AFP

Þá hefur BBC fengið sendar ljósmyndir af sófum í húsnæði Twitter sem hafa verið notaðir sem rúm. Fyrrverandi starfsmanni þykir sumt minna ansi mikið á hótelherbergi. 

Musk sagði í tölvupósti sem hann sendi á alla starfsmenn í síðasta mánuði að allir þyrftu að vinna lengi og af fullum krafti. „Aðeins yfirburða frammistaða mun jafngilda sem viðunandi einkunn,“ skrifaði Musk.

Scott Wiener, öldungadeildaþingmaður í Kaliforníu, segir í samtali við BBC, að Musk sé nú farinn að láta starfsfólk sofa í vinunni. 

„Það er augljóst að honum er alveg sama um fólk. Honum er alveg sama um fólkið sem vinnur fyrir hann.“

Talsmaður húsnæðis- og mannvirkjastofnunar borgarinnar segir að stofnuninni sé skylt að athuga hvort verið sé að nota bygginguna með viðeigandi hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert