Lögregla skaut bónda á gröfu til bana

Eins og sjá má skaut lögreglan fjölda skota gegnum rúðu …
Eins og sjá má skaut lögreglan fjölda skota gegnum rúðu í hurð gröfunnar eftir að bóndinn réðst að lögreglubifreiðinni og velti henni með gröfunni. Var hann úrskurðaður látinn á vettvangi. Skjáskot/Sjónvarpsfréttir NRK

Rannsóknarlögreglan Kripos, norska matvælaeftirlitið og rannsóknardeild í innri málefnum lögreglunnar eru meðal þeirra sem koma að eftirmálum þess að lögreglan í Troms og Finnmark í Noregi skaut bónda á fimmtugsaldri í Lavangen fjölda skota á öðrum tímanum í nótt eftir að hann veittist að lögreglu á gröfu.

Bóndinn var úrskurðaður látinn á staðnum og greindi dagblaðið VG frá því að lögreglubifreið hefði legið á hliðinni á vettvangi. Sjá má mynd af bifreiðinni í frétt NRK sem vísað er til hér neðst. Myndir norskra fréttamiðla sýna fjölda gata á hliðarrúðu gröfunnar eftir byssukúlur tveggja lögregluþjóna sem komu á vettvang í kjölfar þess er Háskólasjúkrahúsið í Norður-Noregi hafði óskað lögreglufylgdar vegna vitjunar hjá bóndanum.

Töldu sig í lífsháska

„Enginn vafi leikur á því að þarna var um alvarlegan atburð að ræða og okkar fólk taldi sig í lífsháska,“ segir Astrid Nilsen, lögreglustjóri í Troms, við norska dagblaðið VG. „Rannsóknardeild innri málefna hefur málið nú til rannsóknar samkvæmt reglum og við tjáum okkur ekki meira um hvað gerðist í bili,“ segir hún enn fremur en rannsóknardeild innri málefna fær til meðferðar öll tilfelli er lögregla hleypir af skotvopnum við störf.

„Þarna kom upp atvik sem gerði það að verkum að lögregla var tilneydd að beita skotvopnum gegn manninum í tengslum við verkefni heilbrigðiskerfisins sem fór úr böndunum,“ segir Sander Dahle Kittelsen lögregluvarðstjóri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en útvarpið hefur enn fremur fengið það staðfest frá Háskólasjúkrahúsinu í Norður-Noregi að lögreglan hafi verið komin á vettvang á undan starfsfólki sjúkrahússins.

Skrifar VG að bóndinn hafi þá brugðist ókvæða við en lögregla gefur ekkert upp um sjálfa atburðarásina annað en að lögreglumenn á vettvangi hafi talið sig í lífsháska og því beitt skotvopnum.

Tíu manns fallið fyrir skotum lögreglu frá 2005

Rannsóknarlögreglan Kripos aðstoðar staðarlögregluna við rannsókn málsins og norska matvælaeftirlitið hefur sent fólk á staðinn sem tryggja mun að skepnur bóndans fái nauðsynlega umhirðu.

Síðustu 17 ár, frá 2005, hefur norska lögreglan skotið tíu manns til bana samkvæmt skýrslum rannsóknardeildar í innri málefnum lögreglu. Í engu þeirra tilfella hefur lögregla verið talin hafa farið offari en fimm þessara tíu tilfella hafa átt sér stað frá árinu 2020, það síðasta í nóvember í fyrra.

Áfallahjálparteymi sveitarfélagsins Lavangen, sem er heimili 970 íbúa, hefur komið saman og er þess albúið að aðstoða þá sem þess þurfa að sögn Hege Beate Rollmoen sveitarstjóra. „Ég held að flestir hafi vaknað upp við áfall og vantrú og fólki líði ekki vel. Þetta er hreinlega skelfilegt,“ segir Rollmoen við NRK.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert