„Kjósið Perú í hag“

Dina Boluarte forseti biður þingið að flýta kosningunum fram til …
Dina Boluarte forseti biður þingið að flýta kosningunum fram til 2023, tugir hafa látist í mótmælum í Perú. AFP/Cris Bouroncle

Perúska þingið tók í dag til annarrar umræðu lagafrumvarp sem flýta mun kosningum í landinu verði það að lögum. Tugir hafa látið lífið í heiftúðugum mótmælum og óeirðum síðan þingið kærði Pedro Castillo forseta til embættismissis í desember sem kom til af því að Castillo hugðist rjúfa þingið.

Við embætti tók Dina Boularte varaforseti og dró þá ekki úr mótmælum stuðningsmanna Castillos sem kröfðust afsagnar Boularte og nýrra kosninga. Hún lofaði hins vegar kosningum vorið 2024 sem þykir seint í rassinn gripið og ræðir þingið nú áðurnefnda lagabreytingu.

Færi á að vinna traust þjóðarinnar

Ófriðarbálið kynda einkum fátækir íbúar og frumbyggjar frá Suður-Perú sem eru eindregnir stuðningsmenn Castillos og litu á hann sem einn þeirra auk þess að binda miklar vonir við umbætur undir hans stjórn, svo sem á vettvangi fátæktar, kynþáttahaturs og ójöfnuðar.

Hvetur Boluarte forseti þingið til að flýta kosningunum svo þær megi fara fram á þessu ári. „Kjósið Perú í hag, landinu, með því að flýta kosningunum til 2023,“ sagði hún í ávarpi í gær. „Á morgun gefst ykkur færi á að vinna traust þjóðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert