Sameinuð til móts við NATO

Sanna Marin og Ulf Kristersson í Stokkhólmi í dag. Þau …
Sanna Marin og Ulf Kristersson í Stokkhólmi í dag. Þau ætla ríkjum sínum sameiginlega inngöngu í NATO hvað sem Tyrkjum líður. AFP/Anders Wiklund

Finnsk og sænsk stjórnvöld ætla sér eftir sem áður að ganga hlið við hlið inn fyrir vébönd Atlantshafsbandalagsins NATO hvað sem líður pólitísku moldviðri, mótmælum og spennu í samskiptum við tyrknesk yfirvöld vegna aðildarumsóknarinnar.

Frá þessu greindu forsætisráðherrar landanna, Sanna Marin og Ulf Kristersson, á sameiginlegum blaðamannafundi í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í dag.

„Við hófum þessa vegferð saman og við viljum ljúka henni saman. Það er hagur allra bandalagsríkjanna að við göngum saman inn í NATO. Þessa för þurfum við að fara hönd í hönd,“ sagði Marin á fundinum.

Hefði getað gert meira

Þegar dansk-sænski hægriöfgamaðurinn Rasmus Paludan brenndi Kóraninn skammt frá tyrkneska sendiráðinu í Stokkhólmi í einum af nokkrum mótmælum laugardagsins 21. janúar töldu tyrknesk stjórnvöld keyra um þverbak og aflýstu fyrirhuguðum fundi sínum með sænska varnarmálaráðherranum þar sem til stóð að þoka NATO-málunum í samkomulagsátt en Tyrkir hafa hótað að beita neitunarvaldi gegn aðild Finnlands og Svíþjóðar fái þeir ekki hóp Kúrda framseldan.

Bað Kristersson landa sína í Svíþjóð að anda með nefinu og gera sitt til að lægja öldurnar í samskiptum við Tyrki. Sagði tyrkneski prófessorinn og dálkahöfundurinn Mensur Akgün í samtali við norska dagblaðið VG á föstudaginn að hlutirnir hefðu verið á réttri leið þar til Paludan brenndi Kóraninn. „Sænska stjórnin hefði getað gert meira til að hindra þetta,“ sagði prófessorinn.

Ráðherrarnir kynna sjónarmið sín á fundinum í dag.
Ráðherrarnir kynna sjónarmið sín á fundinum í dag. AFP/Jonathan Nackstrand

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti er þar hverju orði sammála og fordæmir að sænsk stjórnvöld leggi blessun sína yfir að bókin sé brennd en lögreglan í Stokkhólmi hafði samþykkt leyfisumsóknir fyrir öllum mótmælunum þennan janúardag svo tyrknesk stjórnvöld líta svo á að þau sænsku hafi þar með veitt samþykki sitt.

Vandræðabarnið í kennslustofunni

„Svo lengi sem þið leyfið þetta munum við ekki segja já við NATO-umsókn ykkar,“ hefur sænska blaðið Expressen orðrétt eftir Erdogan sem einnig hefur sagt berum orðum að Finnland geti fengið jáyrði frá Tyrkjum en ekki Svíar á meðan Kóranbrennur leyfist þar.

Marin forsætisráðherra þykir þetta miður. „Ég get ekki fallist á að Svíþjóð sé nú í hlutverki einhvers „vandræðabarns“ í kennslustofunni. Þannig er málið ekki vaxið. Svíþjóð uppfyllir allar kröfur til NATO-aðildarríkis. Það er NATO í hag að Svíþjóð og Finnland fylgist að því við hér norður frá erum eins sett í öryggislegu tilliti,“ sagði ráðherrann.

SVT
Expressen
VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert