Grunaðir um að undirbúa sprengingu

Lögreglan þvingaði bifreið af veginum við eftirför og í henni …
Lögreglan þvingaði bifreið af veginum við eftirför og í henni reyndust þrír unglingar auk vopna. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögreglan í Stokkhólmi í Svíþjóð krefst gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir tveimur 17 ára gömlum unglingum vegna gruns um að þeir hafi lagt á ráðin um að sprengja sprengju í Farsta og valda með því almannahættu og tjóni.

Voru grunuðu handteknir aðfaranótt laugardags eftir að þeir höfðu stöðvunarmerki lögreglu að engu. Hófst þá eltingarleikur sem fékk þær lyktir að lögreglan þvingaði bifreið grunuðu út af veginum og reyndust grunuðu þar ásamt þriðja unglingnum sem er yngri en 15 ára og því ósakhæfur.

Þrír til handteknir

Við leit í bifreiðinni fundust vopn og taldi lögregla ástæðu til að framkvæma húsleit á nokkrum stöðum í Stokkhólmi í kjölfarið. „Við húsleit fannst efni sem grunur leikur á að sé sprengiefni,“ segir Lukas Tigerstrand saksóknari í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT.

Var sprengjusveit lögreglu kölluð á vettvang og í kjölfarið féll áðurnefndur grunur á eldri piltana tvo en að auki hefur lögregla handtekið þrjá til viðbótar sem grunaðir eru um stórfellt vopnalagabrot í tengslum við sama mál.

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert