Selenskí þakkar Bretum persónulega

Forsætisráðherra og forseti takast í hendur við dyr embættisbústaðar ráðherrans …
Forsætisráðherra og forseti takast í hendur við dyr embættisbústaðar ráðherrans að Downing-stræti 10 við komu Selenskís til London í dag. AFP/Daniel Leal

Bresk stjórnvöld boðuðu í dag aukinn stuðning við Úkraínu í stríðinu við Rússa við upphaf heimsóknar Volódímírs Selenskí Úkraínuforseta til London þar sem hann ræddi við Rishi Sunak forsætisráðherra auk þess sem hann mun hitta Karl Bretakonung og ávarpa þingið í þessari annarri utanlandsför sinni síðan Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir bráðum ári.

„Bretar voru meðal fyrstu þjóða til að rétta Úkraínu hjálparhönd,“ skrifaði Selenskí á samfélagsmiðla við komuna og kvaðst vilja færa breskum almenningi persónulega þökk sína.

Lögregla hafði uppi mikinn viðbúnað við Westminster-höllina í dag í …
Lögregla hafði uppi mikinn viðbúnað við Westminster-höllina í dag í tilefni af komu Úkraínuforseta. AFP/Adrian Dennis

Lýsti breska stjórnin því yfir að hún hygðist bjóða upp á þjálfun fyrir úkraínska orrustuflugmenn og sjóhermennm, en á sama tíma er aukinn hernaðarlegur stuðningur við Úkraínu til rökræðu í öðrum vestrænum bandalagsríkjum þegar von er á að Rússar herði enn sókn sína að nágrannaríkinu.

Árás Pútíns engan árangur borið

Sagði Sunak í þinginu eftir fund sinn með Selenskí að Bretland héldi áfram að „styðja Úkraínu svo tryggja megi sigur á vígvellinum – á þessu ári“. „Árás Pútíns hefur engan veginn borið árangur og þess vegna flýtum við nú og aukum hernaðaraðstoð okkar við Úkraínu,“ sagði ráðherra enn fremur.

Enn fremur boða Bretar frekari viðskiptaþvinganir sem að þessu sinni muni koma niður á viðskiptasamböndum rússneska hersins og Olaf Scholz Þýskalandskanslari sagði það öruggt að Moskva hrósaði ekki sigri í þessu stríði, framtíð Úkraínu væri innan Evrópusambandsins. „Pútín nær ekki markmiðum sínum [...] ekki á vígvellinum og ekki með stýrðum friði. Svo mikið er víst eftir eins árs stríðsrekstur,“ sagði kanslarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert